Sækist eftir embætti 2. varaforseta ASÍ

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, gefur kost á sér í embætti 2. varaforseta Alþýðusambands Íslands á þingi sambandsins í næstu viku. Hann hefur verið formaður Rafiðnaðarsambandsins í sjö ár og setið í miðstjórn Alþýðusambandsins í sex ár en aldrei verið þar í æðstu forystusætum.

Í fréttatilkynningu kemur fram að þetta séu baráttumál Kristjáns:

  • Forsetahópurinn á að endurspegla fjölbreytni og breidd á vinnumarkaði og í Alþýðusambandinu sjálfu. Ég vek athygli á því að áratugur er liðinn frá því fulltrúi iðnaðarmanna skipaði síðast eitt af forsetaembættum ASÍ og býð mig meðal annars fram til að rödd iðnaðarmanna heyrist líka í æðstu forystunni. Slíkt stuðlar að meiri samkennd og samstöðu í verkalýðshreyfingunni og styrkir heildarsamtök hennar enn frekar.
  • Ég er baráttumaður fyrir bættum kjörum launamanna og á auðvelt með að starfa með fólki með ólík viðhorf, við mismunandi aðstæður.
  • Markmiðið er að byggja upp norrænt velferðarsamfélag með öflugu, félagslegu öryggisneti.
  • Stuðla þarf að því að lækka vexti og gera ráðstafanir í húsnæðismálum til að launafólk geti eignast þak yfir höfuðið og jafnframt framfleytt sér og sínum.
  • Afnema ber alla skerðingu lífeyris í almannatryggingakerfinu og tryggja þeim mannsæmandi tekjur til framfærslu sem misst hafa starfsgetu af einhverjum ástæðum.

„Ég tek það fram að gefnu tilefni að ég mun ekki lýsa yfir stuðningi við neinn frambjóðanda til forsetaembættis Alþýðusambandsins og tel mig geta starfað náið með þeim sem ASÍ-þingið velur til þessa æðsta embættis sambandsins, hver svo sem það verður,“ segir enn fremur í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert