Öruggt húsaskjól mannréttindi

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, lagði í dag fram skýrslu sína um stöðu og þróun húsnæðismála á húsnæðisþingi sem haldið er í dag. Hann sagði lykilatriði að líta á húsnæðismál sem velferðarmál.

„Þá ákveðum við líka að þegar velferðarmál eru annars vegar er allt í lagi að stjórnvöld grípi inn í og stjórni hlutum,“ sagði Ásmundur. Hann sagðist halda að stjórnvöld hafi verið of hrædd í langan tíma að grípa inn í vegna þess að litið hafi verið á húsnæðismál sem mál markaðarins.

Hann sagði það mannréttindi að hafa öruggt húsaskjól og að kostnaður vegna húsnæðis væri stærsti einstaki útgjaldaliður flestra fjölskyldna.

Þetta er í fyrsta sinn sem ráðherra leggur fram skýrslu um stöðu og þróun húsnæðismála en það er í samræmi við nýtt ákvæði laga um húsnæðismál sem með lagabreytingu sem samþykkt var á Alþingi á síðasta löggjafarþingi.

Ásmundar vísaði til stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum sem byggist á því að öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu sé ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Allar fjölskyldur landsins eigi rétt á viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði og að í öllum byggðum landsins eigi að vera nægilegt framboð af húsnæði.

Ráðherra sagði að 800 milljónir yrðu settar aukalega í almenna íbúðakerfið á næsta ári. Það yrði að skoða hvernig hægt væri að gera breytingar á því; til að mynda hvernig megi flýta framkvæmdum.

Aðgerðir til að auka möguleika fyrstu kaupenda á íbúðamarkaði þar sem horft verði sérstaklega til tekju- og eignaminnihópa, fjölgun hagkvæmra leiguíbúða, átak til uppbyggingar á landsbyggðinni og tilraunaverkefni sem Íbúðalánasjóður mun ráðast í á næstunni með allt að fjórum sveitarfélögum með það að markmiði að finna viðeigandi lausnir á húsnæðisvanda sveitarfélaga þar sem stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum eru meðal þeirra verkefna sem Ásmundur nefndi að yrðu í forgangi næstu misserin.

„Staðan á leigumarkaði er óviðunandi og hefur verið allt of lengi. Það er allt of mikið af verja 40% eða hærra af ráðstöfunartekjum í leigu. Við eigum að geta haft það þannig að fólk geti valið um búsetuform á sanngjörnu verði,“ sagði Ásmundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert