„Bókstaflega óendanlega dýrar“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi þá samninga sem gerðir voru á tíunda áratugnum við íslensku þjóðkirkjuna um sölu kirkjujarða.

Benti hann á að samið hefði verið um reglulegar greiðslur til kirkjunnar fyrir jarðirnar, um ókomna tíð. „Kirkjujarðirnar eru því bókstaflega óendanlega dýrar,“ sagði Helgi og bætti við að verð þeirra væri þannig táknað með tölustafnum átta, á hlið.

Spurði hann Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvort endurfremja ætti þann verknað sem gerður var þá, eða festa hann enn betur í sessi, í nýjum samningum við kirkjuna.

„Þyrfti risastóra upphæð“

Bjarni sagði mikilvægt að ríkið stæði við þá samninga sem það gerði fyrir sitt leyti. Hann sagði það langsótt að segja upp einhliða samningnum. Ef vilji beggja aðila stæði þó til að endurskoða samningana þá væri það hægt.

Helgi Hrafn sagðist ekki vera að leggja til að ríkið stæði ekki við sína samninga. Samningurinn væri þó í einu orði sagt „hroðalegur“. Hann spurði enn fremur hvort Alþingi myndi koma að staðfestingu breytinga eða nýrra samninga við kirkjuna.

Bjarni sagðist verða að játa að hann væri ekki með svar við því á hreinu. Sagðist ekki gera ráð fyrir að samningurinn kæmi sjálfur fyrir þingið, en ekki væri þó hægt að fjármagna hann nema með fjárlögum, sem samþykkt yrðu af þinginu.

Ef menn ætluðu að breyta samningnum úr núverandi ástandi, til að linna greiðslunum, þyrfti væntanlega „einhverja risastóra upphæð til að gera upp framtíðina,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina