Dæmdur fyrir vörslu 254 kannabisplantna

Maðurinn játaði sök fyrir dómi og var tekið tillit til …
Maðurinn játaði sök fyrir dómi og var tekið tillit til þess við uppkvaðningu dómsins, sem og hreins sakaferils mannsins. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í 12 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot.

Maðurinn er fundinn sekur fyrir að hafa í janúar á þessu ári haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 254 kannabisplöntur, rúmlega 480 grömm af maríjúana og um 2,5 kíló af kannabislaufum og fyrir að hafa um nokkurt skeið ræktað kannabisplöntur.

Maðurinn játaði sök fyrir dómi og var tekið tillit til þess við uppkvaðningu dómsins, sem og hreins sakaferils mannsins. Hins vegar mat dómurinn það svo að horfa yrði til þess umtalsverða magns sem ákærði hafði í vörslum sínum og ætlað var til sölu og dreifingar. Maðurinn var því dæmdur í 12 mánaða fangelsi, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún felld niður að liðnum þremur árum haldi ákærði skilorð.

Í dómnum kemur fram að í heildina voru gerðar upptækar 254 kannabisplöntur, 480,40 grömm af maríjúana, 2.543,08 grömm af kannabislaufum, átta spennubreytar, tvær rafmagnstöflur, fjórir lampar, fjögur fjöltengi, fimm tímarofar, fjórar viftur, loftblásari og ellefu moldarpokar.

Manninum var alls gert að greiða lögmanni sínum málsvarnarþóknun, 252.960 krónur, auk 329.108 krónur í annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert