Höfðar dómsmál gegn Ernu Solberg

Kathrine Kleveland, formaður samtakanna Nei til EU.
Kathrine Kleveland, formaður samtakanna Nei til EU. Ljósmynd/Aðsend

„Framsal fullveldis til Evrópusambandsins í hverju málinu á fætur öðru, nú síðast til orkustofnunar sambandsins, er stjórnarskrármál. Baráttunni fyrir fullveldið er ekki lokið.“

Þetta segir Kathrine Kleveland, formaður norsku samtakanna Nei til EU, í samtali við norska dagblaðið Nationen en samtökin hafa höfðað mál gegn stjórnvöldum í Noregi vegna samþykktar á þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins í mars á þessu ári í gegnum aðild landsins að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Samtökin telja að 93. grein norsku stjórnarskrárinnar um framsal fullveldis, sem krefst 3/4 atkvæða þingmanna á Stórþinginu þar sem að minnsta kosti 2/3 þingmanna eru viðstaddir, hafi átt við um afgreiðslu þriðju orkutilskipunarinnar. Hún var hins vegar aðeins samþykkt með einföldum meirihluta atkvæða.

Dómsmál Nei til EU hefur verið höfðað gegn Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, sem æðsta embættismanns landsins en samtökin hafa safnað fé að undanförnu fyrir málaferlunum. Málið verður helsta viðfangsefni landsfundar Nei til EU sem fram fer um næstu helgi.

Þriðja orkutilskipunin hefur ekki enn verið samþykkt hér á landi en íslensk stjórnvöld stefna á að leggja fram þingmál um samþykkt hennar í febrúar á næsta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka