Rússíbani í matseldinni

Steinþór Hróar Steinþórsson og Sigrún Sigurðardóttir hér á góðum degi …
Steinþór Hróar Steinþórsson og Sigrún Sigurðardóttir hér á góðum degi og ekki að hafa áhyggjur af matseldinni þá stundina. Eggert Jóhannesson

Steindi Jr. var til svara í dagskrárliðnum Hvað er í matinn? hjá Huldu og Loga á mánudegi en þau eru sammála um að þetta sé mögulega leiðinlegasta spurning dagsins og alltaf sami vandræðagangurinn heima fyrir að velja kvöldmatinn.

Planið að vera með  „teilara“ á kantinum

Þau náðu Steinda glóðvolgum þar sem hann hafði nýlega rætt þetta við konuna sína. „Ég held að þið lesið hugsanir,” svaraði Steindi þegar þau náðu í hann. „Ég var að ræða þetta við konuna mína og ég var búinn að stinga upp á heimalagaðri pizzu.“
Spurður út í áleggstegundir ofan á pizzuna segist hann setja allt sem til er í ísskápnum s.s. rauðlauk, papriku, ost og þetta helsta. „Og svo er maður með teilara á kantinum og svona,“ útskýrir Steindi en þar á hann við kokteilsósuna góðu.

Það kom þó í ljós í viðtalinu að konan hafði betur í ákvörðuninni um kvöldverðinn þann daginn og bjúgu með uppstúf varð ofan á. Uppstúfurinn, eða hin uppbakaða mjólkursósa, var því rædd vel og mikið enda sagðist Steindi ekki kunna að búa hann til, en Logi sagðist kunna það og gaf honum uppskrift í beinni.

Uppstúf tók fjóra til fimm tíma

Steindi deildi því með hlustendum að í hið fyrsta og eina sinn sem hann reyndi að búa til uppstúf þá klúðraðist það. Hann varð að fara tvisvar út í búð til að sækja nýtt hráefni því það kláraðist allt við tilraunina. Honum þykir þetta því ekki léttvægt verk enda þurfi að standa yfir pottunum til að þetta takist. „Þetta tekur mig svona fjóra til fimm tíma, þannig að ég gef krakkanum örugglega bara pylsu eða eitthvað þægilegt, svo svæfi ég bara og nostra svo bara í einhverjum uppstúf þegar konan kemur heim.“

Steindi hló að lokum að allri vitleysunni í kringum matargerð heimilisins í upphafi vikunnar. „Sjáið hvað þetta er mikill rússíbani á mánudegi heima hjá mér. Það átti að vera heimatilbúin pizza, en svo er ég að fara að sjóða pylsur en að þykjast vera að fara að gera uppstúf!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert