Neyðast til að dvelja á bráðamóttöku

„Afstaða Krafts er mjög skýr, aðgangur krabbameinssjúklinga að þjónustu eftir klukkan 16 á daginn og um helgar á ekki að vera í gegnum bráðamóttökuna og það er ótækt að ekki séu öll legurými á krabbameinsdeild nýtt á meðan krabbameinssjúklingar neyðast til þess að dvelja á bráðamóttöku eða almennum deildum þar sem er ekki sama fagþekking og á krabbameinsdeildinni,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra. Hún bætir við að þetta eigi við um alla krabbameinssjúklinga á hvaða aldri sem þeir eru.

Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í gær þá kemur mannekla í veg fyrir að hægt sé að nýta öll legupláss á Krabbameinsdeild Landspítalans. Það sama á við um aðrar deildir.

Eins og staðan er núna er einungis hægt að nýta 10 rúm af 14 á krabbameinsdeild. Á meðan ástandið er þannig þurfa bráðasjúklingar að liggja á almennum deildum og á bráðamóttöku.

„Kraftur verður vart við það að margt ungt fólk með krabbamein kvartar yfir því að geta ekki sótt þjónustu annað en á bráðamóttöku eftir klukkan 16 á daginn og um helgar,“ segir Hulda og bendir á að krabbameinslyf bæli niður ónæmiskerfið og það geti beinlínis verið hættulegt í þannig ástandi að fá sýkingar. Hættan eykst með því að vera lengi innan um fólk sem kemur á bráðamóttökuna með kvef og flensur sem dæmi.

„Ég geri mér grein fyrir því að mannekla kemur í veg fyrir að hægt sé að nýta öll rými á krabbameinsdeildinni og að starfsfólk bráðamóttöku geri allt til þess að krabbameinssjúklingar komist sem fyrst að og í eins mikla einangrun og hægt er á bráðadeildinni, en þetta er ekki boðlegt,“ segir Hulda.

Hún segir að Kraftur hafi óskað eftir úrbótum en lítil viðbrögð fengið. Hulda segir að Ísland standi langt að baki hinum Evrópulöndunum hvað varði virka krabbameinsáætlun.

 Óvirk krabbameinsáætlun

„Við erum eina Evrópuþjóðin sem ekki vinnur samkvæmt slíkri áætlun. Í fyrrahaust, í tíð Óttars Proppé sem heilbrigðisráðherra, var loks gefin út krabbameinsáætlun sem lengi hafði legið hjá ráðuneytinu. Nú er komið rúmt ár síðan áætlunin var lögð fram án þess að henni hafi nokkuð verið fylgt eftir,“ segir Hulda og bendir á að í krabbameinsáætlun sé sett fram stefna og verkefnum forgangsraðað. Hún segir að í vinnuhópnum sem vann áætlunina hafi setið fulltrúar frá ráðuneytum, fagaðilar og fulltrúar krabbameinssjúklinga.

Fullt alls staðar

„Það er allt fullt alls staðar, það er ekkert nýtt. Þetta ástand er búið að vara lengi. Það vantar bæði legurými og hjúkrunarfræðinga, lækna og annað fólk til starfa,“ segir Helgi Sigurðsson, prófessor krabbameinslækninga við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítalanum, spurður út í stöðu mála.

Helgi segir að 10 legurými af 14 séu nýtt á krabbameinsdeild þar sem ekki sé nægur mannskapur til að sinna 14 sjúklingum. Á meðan dvelji krabbameinssjúklingar og aðrir sjúklingar á almennum deildum.

„Almenn deild og bráðamóttakan er það sem bíður sjúklinga sem koma inn með bráðavanda. Skortur á hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki og úrelt húsnæði hafa háð okkur lengi – það eru ekki nýjar fréttir,“ segir Helgi og bendir á að það hefði þurft að taka nýjan spítala í notkun fyrir að minnsta kosti 10 árum og umræða um byggingu hans hafi staðið frá árinu 1990.

13 ár frá „Símapeningunum“

„Þegar Landspítalinn og Sjúkrahús Reykjavíkur voru sameinuð fyrir 18 árum var fyrirhugðuð bygging nýs sjúkrahúss hluti af sameiningunni. Það er ótrúlegt að 13 árum eftir að ríkið eyrnamerkti svokallaða „Símapeninga“ til byggingar nýs spítala sé enn verið að ræða byggingu hans. Ísland er eina Norðurlandaríkið sem ekki hefur byggt nýjan spítala,“ segir Helgi og bætir við að stóra vandamálið sé að það stefni í hrikalegan skort á hjúkrunarfræðingum. Það geti hugsanlega dregið úr áhuga þeirra sem stunda sérnám erlendis á að koma heim í það umhverfi sem boðið sé upp á og líkur séu á að núverandi ástand vari næstu árin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert