Landspítalinn braut lög við ráðningu

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landspítalinn hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að ráða karl í stöðu sérfræðings í meltingarlækningum í stað konu. Bæði eru þau læknar og ráðið var í stöðuna í febrúar á þessu ári.

Konan taldi sig hæfari en karlinn sem ráðinn var, en Landspítalinn rökstuddi ráðningu hans með því að karlinn hefði verið hæfari og vísaði þar einkum til frammistöðu í starfsviðtali.

Kærunefndin taldi konuna hafa staðið framar þeim sem ráðinn var með tilliti til allra hlutlægra þátta sem áskildir voru í auglýsingu auk þess sem karlinn hefði við lok umsóknarfrests ekki uppfyllt kröfu auglýsingar og reglnanna um sérfræðiréttindi. 

Þá taldi kærunefndin að í ljósi þess hve takmarkaðra gagna nyti við um viðtölin sem Landspítalinn byggði ráðningu á hefði spítalinn ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir ákvörðun um ráðninguna. Þótti Landspítalinn þannig ekki hafa sýnt fram á að aðrir þættir en kynferði hafi ráðið þeirri ákvörðun og brotið gegn lögunum við ráðningu í stöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert