Fjölmiðlanefnd sýknuð af kröfum 365

365 var sektað eftir að áfengisauglýsingar höfðu birst í október-, …
365 var sektað eftir að áfengisauglýsingar höfðu birst í október-, nóvember- og desemberheftum tímaritsins Glamour. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað fjölmiðlanefnd af kröfum 365 miðla um ógildingu á ákvörðun nefndarinnar um álagningu stjórnvaldssektar vegna birtingar áfengisauglýsinga í tilteknum heftum tímaritsins Glamour. 

Ákvörðun nefndarinnar er frá 31. maí 2017 þar sem 365 var gert að greiða 1.000.000 króna í stjórnvaldssekt þar sem birst höfðu áfengisauglýsingar í október-, nóvember- og desemberheftum tímaritsins Glamour. Talið var að miðillinn hefði með þessu brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla þar sem fram kemur að viðskiptaboð og fjarkaup fyrir áfengi og tóbak séu óheimil. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í gær, að talið hefði verið að ákvörðuninni hefði verið réttilega beint að 365 miðlum þar sem það hefði verið sú fjölmiðlaveita sem starfrækti tímaritið í skilningi laga um fjölmiðla á þeim tíma sem máli skipti.

Það var því ekki fallist á röksemdir 365 miðla um að nefndina hefði skort heimild til að taka umrædda ákvörðun þar sem tímaritið hefði verið gefið út af bresku dótturfélagi 365 sem væri með starfsstöð og aðalskrifstofu í Bretlandi, og félli utan gildissviðs laganna.

Þá var ekki heldur fallist á þá röksemd 365 að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu og reglum EES-réttar með hinni umdeildu ákvörðun.

Héraðsdómur dæmdi enn fremur 365 til að greiða 800.000 kr. í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert