Ríkisstjórnin hefur „raknað úr rotinu“

Þorsteinn Víglundsson í pontu.
Þorsteinn Víglundsson í pontu. mbl.is/Eggert

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir það fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi í dag kynnt áform um stofnun átakshóps til aðgerða í húsnæðismálum. Um það bil ári eftir að hún tók við völdum sé hún farin að átta sig á því að þarna sé vandamál á ferðinni.

Þetta sagði hann á Alþingi undir dagskrárliðnum störf þingsins.

Þorsteinn benti á að síðasta ríkisstjórn hafi í samvinnu við sveitarfélög einnig skipað starfshóp um húsnæðismál sem skilaði niðurstöðu fyrir einu og hálfu ári síðan. „Það verður ekki séð að ríkisstjórnin hafi gert nokkuð með þær tillögur,“ sagði Þorsteinn og nefndi að núna, ári síðar, hafi hún „raknað úr rotinu“ og skipað starfshóp.

Hann kvaðst hvorki hafa mikla trú á þessum starfshópi né öðrum starfshópum ríkisstjórnarinnar og talaði um framkvæmdaleysi hennar. „Þetta er leiktjaldaríkisstjórn, ekki framkvæmdaríkisstjórn“.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Málið ekki svæft í nefnd

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, steig síðar í pontu og sagði ástæðulaust að gera lítið úr starfshópnum. Hann bætti við að húsnæðismálin skipti verulegu máli í aðdraganda kjarasamninganna sem eru handan við hornið og að ríkisstjórnin taki viðfangsefnið alvarlega.

Einnig benti hann á að starfshópurinn eigi að skila af sér niðurstöðu eftir einn og hálfan mánuð og því sé fjarri sanni að verið sé að svæfa málið í nefnd. Mikilvægt sé að ræða málið við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin um stefnu á sviði húsnæðismála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert