Snjódýptin rúmur metri

Kirkjan fékk svo sannarlega á sig jólalegan blæ í öllum …
Kirkjan fékk svo sannarlega á sig jólalegan blæ í öllum snjónum sem kyngt hefur niður á Akureyri um helgina. mbl.is/Þorgeir

„Það var fallegt að labba í vinnuna í morgun, þetta var bara eins og í gamla daga. Snjór úti um allt og maður sá ekki alltaf hvort það voru bílar undir sköflunum,“ sagði starfsmaður á síma hjá Akureyrarbæ þegar mbl.is hafði samband við umhverfimiðstöð bæjarins.

Snjódýptin á Akureyri mældist 105 sm í morgun samkvæmt mælum Veðurstofunnar, en var 23 sm á fimmtudagsmorgun. Snjó hefur líka kyngt duglega niður í Eyjafirði og nágrenni um helgina og bætti vel í snjóinn á Akureyri í nótt.

Lög­regl­an á Ak­ur­eyri birti m.a. myndir á Facebook af snjó­num og hvatti íbúa til að gefa því gaum með hvað hætti fólk komi sér til og frá vinnu og skóla, þar sem marg­ar íbúa­göt­ur séu mjög erfiðar yf­ir­ferðar fyr­ir fólks­bíla.„Það hef­ur nú ekki farið fram hjá nein­um að snjó hef­ur kyngt niður á Norður­landi um helg­ina og nú í nótt bætt­ust ca.10 cm við. Snjómokst­ur er nú þegar haf­inn, jafnt í þétt­býli sem dreif­býli,“ sagði í færsl­unni.

Snjódýptin á Akureyri mældist 105 sm í morgun samkvæmt mælum …
Snjódýptin á Akureyri mældist 105 sm í morgun samkvæmt mælum Veðurstofunnar. mbl.is/Þorgeir

Gengur hægt að ryðja

Gunnþór Hákonarson, yfirverkstjóri umhverfismiðstöð Akureyrarbæjar, segir hægt ganga að ryðja götur bæjarins. „Það er ekki byrjað að ryðja íbúagötur,“ segir hann og kveður enn vera unnið að því að ryðja stofnleiðir og helstu götur. „Það er bara farið að moka það allra nauðsynlegasta, það sem er algjörlega ófært af íbúagötum, svo förum við að stinga okkur í þær þegar hægt er,“ bætir hann við og kveðst vonast til að það gerist síðar í dag.

Snjó kyngdi vel niður í nótt  en búið var að sögn Gunnþórs að spá einhverjum éljum. „Annars er þetta alveg óútreiknanlegt,“ segir hann.

Snjómagn í bænum er líka orðið verulegt. Bílar eru sums staðar huldir undir snjósköflum og eitthvað er um að bílar séu að festa sig, sem geri hreinsunarstarf alltaf erfiðara. „Um leið og stofnbrautirnar komast í lag, þá fer þetta að vinnast hraðar niður.  Um leið og það kemst friður á veðrið þá verður þetta líka varanlegur mokstur,“ segir Gunnþór og kveður íbúa sýna þessu skilning enn þá. „Um leið og það kemur stilla í veðrið þá verður fólk hins vegar óþolinmótt og þá fer að liggja meira á, en á meðan það er skítaveður þá segir fólk ekki neitt.“

Búið er að ryðja gangvegi eins og hægt er, en sumar gangstéttir eru þó enn ófærar. „Það er bara svoleiðis,“ bætir Gunnþór við og kveður marga snjóblásara vera í notkun. „Það eru bara snjóblásarar sem virka núna,“ segir hann en á milli 20 og 25 manns vinna nú að því að ryðja götur og gangvegi.

Hann segir ekki mikið um umferð fótgangandi á götum þrátt fyrir ófærð og þá hafi hann enga séð nýta gönguskíðin til að komast á milli.

Mynd sem tekin var á Akureyri á laugardag. Líkt og …
Mynd sem tekin var á Akureyri á laugardag. Líkt og sjá má hefur bætt verulega í snjóinn síðan þá. mbl.is/Þorgeir

Vegir víða þröngir og töluvert um ruðninga

Að sögn Vegagerðarinnar gengur ágætlega að hreinsa vegi í Eyjafirði, en þar hafa menn verið að alla helgina og voru komnir aftur af stað upp úr fimm í morgun. „Ég held að allir vegir hérna hafi verið orðnir færir um áttaleytið,“ segir Sigurður Jónsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Akureyri. Búið er þá að opna Siglufjarðarveginn á ný, en hann var lokaður í nótt vegna snjóflóðahættu.

Vegir eru hins vegar víða þröngir og mikil vinna fram undan að hans sögn við hreinsa út og upp úr vegum og ná þeim í fulla breidd.  „Við fáum vonandi einhverja daga í frið til að gera það,“ segir Sigurður en hreinsunarstarfið undanfarna daga hefur eingöngu snúist um að halda vegunum opnum.

„Við höfum ekki komist í slíka viðbótarvinnu,“ segir hann og kveður víða orðna töluverða ruðninga.

Frost mæl­ist þá um allt land og á nokkr­um stöðum á lág­lendi er 15 til rúm­lega sautján stiga frost. Enn kald­ara er á há­lendi, m.a. í Sand­búðum þar sem frostið mæl­ist nú -19,2°C. Sam­kvæmt sjálf­virk­um mæl­ing­um Veður­stof­unn­ar er -17,3°C á Mý­vatni og -15°C í Húsa­felli.

Vegagerðin og umhverfismiðstöð Akureyrar hafa haft í nógu að snúast …
Vegagerðin og umhverfismiðstöð Akureyrar hafa haft í nógu að snúast við snjómokstur. mbl.is/Þorgeir
Margir snjóblásarar eru nú í notkun við að ryðja gangstéttir.
Margir snjóblásarar eru nú í notkun við að ryðja gangstéttir. mbl.is/Þorgeir
Sundlaugin fékk smá jólaskreytingu með ofankomunni.
Sundlaugin fékk smá jólaskreytingu með ofankomunni. mbl.is/Þorgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert