Erum stödd í lægðabrautinni

Þjóðvegurinn var lokaður við Vík í Mýrdal vegna vindstrengja. Und­ir …
Þjóðvegurinn var lokaður við Vík í Mýrdal vegna vindstrengja. Und­ir Eyja­fjöll­um var meðal­vind­ur allt að 25 m/​s og í hviðum 40 m/​s. Svipaða sögu var að segja í Öræf­um við Sand­fell. Mbl.is/Jónas Erlendsson

„Við erum bara að sigla inn í svartasta skammdegið og versta veðrið,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Gul viðvörun er í gildi á Suður- og Suðausturlandi í dag og er meðalvindur und­ir Eyja­fjöll­um allt að 25 m/​s og í hviðum 40 m/​s. Svipaða sögu var að segja í Öræf­um við Sand­fell og var þjóðvegi 1 lokað milli Hvolsvall­ar og Vík­ur ann­ar­s ­veg­ar og í Öræf­um hins ­veg­ar, milli Núpsstaðar og Jök­uls­ár­lóns.

Elín Björk segir lægðirnar sem gengið hafa yfir landið undanfarið vera nokkuð dæmigerðar fyrir þennan árstíma. Þó að úrkomumet hafi verið slegið með rigningunni í Reykjavík um miðjan nóvember og snjómetið slegið á Akureyri nú í vikubyrjun, hafi veturinn engu að síður verið bæði snjóléttur og mildur hingað til.

„Undanfarin ár hefur nóvember oft verið mjög hlýr,“ segir hún og minnir á tíðina framan af vetri 2014 og 2015. „Þá var hérna stormur annan hvern dag og það byrjaði ekkert fyrr en í desember.“ Fjöldi öflugra lægða hafi líka gengið yfir landið í lok árs 2015 og og byrjun árs 2016. „Þá komu margir vondir stormar í desember og svo janúar og febrúar. Það gerðist líka í fyrra að janúar og febrúar voru miklu verri en haustið.“

Tíðarfarið nú teljist því væntanlega nokkuð eðlilegt og desember í takti við það sem verið hefur undanfarin ár.

Vindstrengurinn var hvass á Vík í Mýrdal og þjóðvegurinn lokaður.
Vindstrengurinn var hvass á Vík í Mýrdal og þjóðvegurinn lokaður. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Gul viðvörun er í gildi sunnanlands í dag, en útlit er fyrir ágætisveður um helgina og gæti snjóað eitthvað á suðvesturhorninu á laugardag. Eftir helgi er hins vegar von á fleiri lægðum og leysingum í kjölfar hlýinda.

„Við erum svolítið í lægðabraut núna, en hæðin er yfir Grænlandi,“ segir Elín Björk og bætir við að útlit sé fyrir einhverja hvelli í næstu viku og að þeim muni fylgja mikil hlýindi og rigning.

Engar stórar breytingar eru heldur sýnilegar í langtímaspám. Lægðasvæðið verður áfram suður af landinu og hæðin yfir Grænlandi. Landsmenn þurfi því ekki að undrast það verði lægðirnar fleiri. „Það er bara eðlilegt,“ segir hún. „Þetta er sá tími sem fólk er að ferðast mikið milli landshluta, en þarf að fylgjast náið með. Það er ekkert óeðlilegt við það að við séum í lægðabrautinni.“ Þeir sem séu á ferðinni þurfi því að fylgjast vel með veðurspánni.

„Við erum vön því að lægðirnar fari ört dýpkandi og veðrið ört versnandi á þessum árstíma. Þannig að það er alveg eðlilegt að hver lægðin reki aðra og þær séu oft svona ein og ein slæm og svo minni inn á milli.“ Bendir Elín Björk á að slæmu lægðirnar verði þá oft aðeins kaldari og líklegri til taka með sér snjókomu frekar en rigningu og samfélagsáhrif þeirra því meiri.

Veðurútlit á hádegi í dag, fimmudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, fimmudag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert