Hæðarstýri virkaði ekki sem skyldi

Flugkennarinn bað flugumferðarstjóra um forgang á flugbraut 13 og tókst …
Flugkennarinn bað flugumferðarstjóra um forgang á flugbraut 13 og tókst lendingin áfallalaust. mbl.is/RAX

Nota þurfti hæðarstillu og minnka þurfti inngjöf á hreyfli flugvélar til þess að hægt væri að lenda henni á Reykjavíkurflugvelli eftir rykkur kom á vélina og hæðarstýri virkaði ekki sem skyldi.

Þetta kemur fram í lokaskýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um alvarlegt flugatvik sem átti sér stað 8. mars 2017.

Atvikið átti sér stað þegar einkaflugmaður í endurþjálfun var að æfa snertilendingar ásamt flugkennara á kennsluflugvél TF-FTO, af gerðinni Textron 172S. Eftir þrjár snertilendingar á flugbraut 13 á Reykjavíkurflugvelli var flugvélin stödd undan vindi í umferðarhring þegar rykkur kom á hana og hún kinkaði (e. pitch) niður.

Einkaflugmaðurinn tók í stýrið til að rétta flugvélina af, en það reyndist níðþungt og erfitt að beita því.

Flugkennarinn tók þá við stjórn flugvélarinnar, prófaði stjórntækin og staðfesti að hæðarstýri væri þungt, ekki hægt að beita því í fulla færslu og að það svaraði hægt. Hann fann einnig að með beitingu á hæðarstýri kinkaði flugvélin lítillega og stýrið hökti.

Önnur stjórntæki reyndust í lagi og notaði flugkennarinn því hæðarstillu flugvélarinnar og minni inngjöf á hreyfli til þess að lækka flugið. Því næst bað hann flugumferðarstjóra í flugturni um forgang á flugbraut 13 og tókst lendingin áfallalaust.

Flugmennirnir og flugvirki hjá viðhaldsaðila framkvæmdu skoðun á flugvélinni og kom í ljós að tengivírar í hæðarstýri virtust lausir, og vír frá stýri flugvélarinnar aftur í hæðarstýri ekki að fullu strekktur. Samkvæmt skýrslu flugvirkjans reyndist togspenna í stjórnvírum hæðarstýris við neðri lágmörk og var hún endurstillt í kjölfarið.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa gat ekki staðfest aðra orsök en slaka vírsins og gerir engar tillögur í öryggisátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert