Oatly forgangsraðar í framleiðslu

Sænsku Oatly-hafravörurnar eru vinsælar á Íslandi.
Sænsku Oatly-hafravörurnar eru vinsælar á Íslandi.

Framkvæmdir vegna aukningar á framleiðslugetu hjá sænska hafravöruframleiðandanum Oatly hafa ekki gegnið hnökralaust fyrir sig. Ýmis vandræði hafa komið upp, en fyrirtækið vinnur nú að því að bæta við framleiðslulínum, og hefur framleiðslugeta á þeirra helstu vörum takmarkast.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Innnes ehf., sem flytur Oatly-vörurnar til Íslands. Þar kemur fram að eftirspurn eftir vörunum hafi aukist gríðarlega síðustu misseri og að erfitt hafi reynst að finna vörur Oatly í verslunum.

Til þess að Oatly geti náð náð fullri framleiðslugetu hefur verið ákveðið að forgangsraða framleiðslu á þeirra helstu vörum, en ákveðið var að taka nokkrar vörur tímabundið úr framleiðslu. Það eru súkkulaðihaframjólk í lítrafernum , appelsínu-mangó haframjólk í lítrafernum og exótísk hafrajógúrt í lítrafernum.

„Athugið að þessar vörur eru ekki að hætta heldur verða tímabundið ekki framleiddar á meðan framleiðslan kemst á fullt skrið.“

Starfsfólk Oatly vonast til að geta afgreitt vörur í því magni sem uppfyllir eftirspurn markaðarins eins fljótt og hægt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert