Tóku nokkra neyðarfundi og náðu þessu

Höfundar Áramótaskaupsins í ár.
Höfundar Áramótaskaupsins í ár. Ljós­mynd/​Rík­is­út­varpið

Tökur á Áramótaskaupinu klárast um helgina og eru á áætlun. Landsmenn mega búast við því að tekið verið á Klaustursmálinu svokallaða í Skaupinu. Ilmur Kristjánsdóttir, einn handritshöfunda Áramótaskaupsins þetta árið, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

„Þetta er allt á áætlun. Við þurftum að fresta einum degi útaf snjókomu, en annars voru engar tafir,“ segir Ilmur.

Hún segir að tökur hafi blessunarlega enn verið í gangi þegar Klaustursupptökurnar komu fram. Þau þurftu því ekki að bæta við neinum tökum. „Ég veit ekki hversu mikið ég á að segja, en við náðum að koma þessu að,“ segir Ilmur aðspurð.

Ilmur Kristjánsdóttir.
Ilmur Kristjánsdóttir. mbl.is/Golli

„Það er eiginlega ekki hægt að hafa Skaupið án þess að þetta sé með. Við tókum nokkra neyðarfundi og náðum þessu.“

Þrátt fyrir að tökum sé að ljúka segir Ilmur heilmikla vinnu eftir. „Það á eftir að kippa, en það er svosem ekki okkar handritshöfunda. Leikstjórinn hefur heilmikið verk fyrir höndum. Mér heyrist á öllu að þetta verði bara nokkuð skemmtilegt.“

Ilmur hefur tvisvar áður verið í handritshöfundahópi Áramótaskaupsins og segir ekki óalgengt að stór mál komi upp í nóvember og desember.

„Ég man einhvern tímann þegar ég var í Skaupinu og það var ákveðið, einmitt til að bregðast við þessu, þá var ákveðið að geyma einn tökudag til 10. desember til að eiga inni ef eitthvað gerðist. En þá gerðist auðvitað ekki neitt,“ segir Ilmur.

mbl.is