Pottur gleymdist á eldavél

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti tveimur brunaútköllum í nótt. Í annað skiptið var um að ræða pott sem gleymst hafði á eldavél í Brautarholti. Einn var inni í íbúðinni og varð honum ekki meint af. Í hinu tilvikinu kviknaði eldur í ljósastaur í Kópavogi.

„Við biðlum til fólks að huga að reykskynjurum nú á aðventunni,“ segir Stefnir Snorrason, varðstjóri slökkviliðsins, í samtali við mbl.is í morgun. Hann segir gott að nota aðventuna til að huga að brunavörnum. Athuga þurfi með rafhlöður í reykskynjurum og eins að á tíu ára fresti þurfi að skipta þeim út. Stefnir segir að dæmin sýni að reykskynjarar bjargi mannslífum. Þá sé ábyrgð fullorðinna mikil því börn sofi oft mjög fast og vakni því ekki endilega við hávaða eða reyk.

„Eignir er hægt að bæta en ekki manntjón,“ segir hann. „Reykskynjarar vekja fólk hressilega og kemur því út. Ef fólk hefur ekki efni á lífverði í mannsmynd þá vil ég vekja athygli á því að reykskynjari er mjög góður lífvörður, sá besti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert