Dæmdur fyrir nauðgun á Hressó

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Hemn Rasul Hamd í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun. Einnig var hann dæmdur til að greiða 1,5 milljónir króna í miskabætur með vöxtum.

Sömuleiðis var hann dæmdur til að greiða tæpar þrjár milljónir króna í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns, þóknun fyrri verjanda síns, þóknun réttargæslumanns brotaþola og þóknun fyrri réttargæslumanns brotaþola.

Héraðssaksóknari ákærði Hamd 19. febrúar en málið var dómtekið 16. nóvember. Hann var ákærður fyrir að hafa aðfaranótt laugardagsins 14. febrúar 2016 á salerni á veitingastaðnum Hressó í Austurstræti haft samræði við konu gegn hennar vilja með því að beita hana ofbeldi og notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum vegna ástands sökum áhrifa áfengis, fíkniefna og lyfja.

Afleiðingarnar urðu þær að konan hlaut hlaut marbletti hægra og vinstra megin á hálsi, roðabletti ofarlega á baki, aftan á upphandleggjum og framan á hægra læri, sár aftan á hægri upphandlegg og hægri olnboga og klórfar á hægri framhandlegg, þreifieymsli á gagnaugum, aftan á upphandleggjum, úlnliðum, aftan á baki neðst, í hægri síðu og yfir lífbeini, að því er kemur fram í ákærunni.

Fram kemur í dóminum að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi. „Skýrsla hennar var í meginatriðum í samræmi við það er hún hafði áður borið hjá lögreglu. Á sama hátt skýrði hún öðrum frá atvikum málsins, bæði vinkonum sínum og eins á Neyðarmóttökunni,“ segir í dóminum.

„Framburður ákærða er á hinn bóginn ekki trúverðugur. Hann bar í upphafi hjá lögreglu að hann myndi ekki hvort hann hefði haft samræði við brotaþola eða ekki. Fyrir dómi kannaðist hann hins vegar við samfarirnar og kvað þær hafa verið með samþykki brotaþola, eins og rakið var.“

mbl.is

Bloggað um fréttina