Segir ekkert nema tækifæri fram undan

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Alþingi.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Við þurfum að móta okkur stefnu og gera áætlanir um hvernig við ætlum að mæta þeirri áskorun að vernda náttúru okkar en um leið að nýta hana landsmönnum til heilla,“ sagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, við umræðu um atvinnustefnu á opinberum ferðamannastöðum.

Vilhjálmur sagði að fólk þyrfti að spyrja sig hvernig það vildi standa að stýringu og útdeilingu takmarkaðra gæða. 

Segir að það þurfi að svara ýmsum spurningum

Hvernig verður best stuðlað að sjálfbærri nýtingu og sjálfbærum rekstri og uppbyggingu innviða á þessum stöðum? Hvaða gæða- og öryggiskröfur þarf ferðaþjónustan eða sú atvinnustarfsemi sem heimsækir eða starfar í og við opinbera ferðamannastaði að uppfylla? Verða gerðar kröfur um starfsleyfi og svo framvegis?“

Vilhjálmur benti á að málið væri ekki á byrjunarreit en flestum þessum áskorunum hefði verið tekið í Þingvallaþjóðgarði, Vatnajökulsþjóðgarði og Snæfellsþjóðgarði. Hann sagði að atvinnustefna væri mikilvæg fyrir svo fjölfarna ferðamannastaði eins og eru innan þjóðgarðanna þar sem koma ein til tæplega tvær milljónir ferðamanna á hvern af fjölsóttustu stöðunum innan þessara þjóðgarða.

Það gefur augaleið að slík aðsókn kallar á svör við spurningum um gjaldtöku, starfsleyfi fyrirtækja, gæði þeirrar þjónustu sem veitt er, umhverfismál, aðgangsstýringu, innviðauppbyggingu og útdeilingu takmarkaðra gæða, til dæmis með útboðum,“ sagði Vilhjálmur.

Hann sagði mikilvægt að ætla sér ekki að finna ríkislausn við öllum áskorunum fyrir alla staði í einu. „Eitt er þó ljóst, það eru ekkert nema tækifæri fyrir framan okkur,“ sagði Vilhjálmur.

Ákveðin tæki sett í verkfærakistuna

„Á undanförnum árum hefur megináhersla á ferðamannastöðunum verið á uppbyggingu innviða til að vernda náttúru og bæta öryggi og upplifun,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Hún sagði að samræmd aðgangsstýring að ferðamannastöðum í opinberri eigu eða umsjón væri ekki til staðar enda væri meginreglan sú að almenningi sé heimil för um landið samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga um almannarétt.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert

Hvað varðar fjöldatakmarkanir má segja að ákveðin tæki hafi verið sett í verkfærakistuna þó að ekki sé farið að beita þeim,“ sagði Þórdís og nefndi til að mynda bílastæðagjöld á fjölsóttum ferðamannastöðum sem væri hægt að nýta til að stýra álagi með skilvirkari hætti en nú er gert.

Engin ein ríkislausn

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að ganga lengra í stýringu, bæði út frá verndar- og nýtingarsjónarmiðum í ljósi stóraukinnar umferðar ferðamanna. Það er hárrétt hjá hæstvirtum þingmanni að það er engin ein ríkislausn og ég vildi fá að taka undir með hæstvirtum þingmanni hvað það varðar. Ég vil nefna það sérstaklega að það er engin ein ríkislausn í þessum verkfærakistum, það er engin ein ríkislausn í gjaldtöku eða stýringum.“

Björn Leví Gunnarsson Pírati sagði að allt tal um uppbyggingu á ferðamannastöðum væri velkomið en verið væri að bregðast við allt of seint. „Fyrsta skrefið í allri uppbyggingu ferðamannastaða er mjög einfalt; landvarsla, virk vöktun og möguleiki á skjótum viðbrögðum við hinum ýmsu uppákomum sem upp geta komið,“ sagði Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert