„Fólk sem hatar rafmagn“

Stilla úr kvikmyndinni Kona fer í stríð.
Stilla úr kvikmyndinni Kona fer í stríð.

Orkumálastjóri segir ofbeldið í kvikmyndinni Kona fer í stríð jafn úrelt og bogi og örvar sem stríðstól. Hann fjallar um myndina í jólaerindi á vef stofnunnar og segir hana einfaldað ævintýri en pistillinn ber yfirskriftina „Fólk sem hatar rafmagn“.

„Það er áleitin spurning hversu mikið vit er í því að leggja vinnu í vandaða umfjöllun og lýðræðislega afgreiðslu mikilvægra og erfiðra mála ef framhaldið er síðan á valdi einstaklinga sem telja sig hafa svo góðan málstað að verja að þeir geti tekið sér vald til þess að ráðast með ofbeldi gegn uppbyggingu mannvirkja og atvinnustarfsemi sem byggir á lýðræðislegri og málefnalegri niðurstöðu bærra stofnana og yfirvalda og er til komin í samræmi við gildandi lög í landinu,“ skrifar Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.

Guðni segir að það sé auðvelt að hrífast með af stigmagnandi söguþræði og einstæðri persónusköpun Benedikts Erlingssonar og Halldóru Geirharðsdóttur. 

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.
Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.

„Við sem höfum á unga aldri drukkið í okkur frásagnir af Hróa Hetti og köppum hans förum létt með að trúa því að bogi og örvar séu öflugt vopn í baráttu gegn vondum öflum og til þess að bjarga fögrum konum úr klóm misyndismanna,“ skrifar Guðni.

Guðni skrifar að það efnahagslega tjón sem framkvæmdaaðili verði fyrir vegna skemmdarverka á mannvirkjum og búnaði séu hreinir smámunir miðað við það fjárhagslega tjón sem hægt er að valda með því að leggja fram tilefnislausar kærur vegna verkefna sem eru að nálgast framkvæmdastig. Með því skapist tafir og óvissa um framhaldið sem geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, til að mynda fyrir fjármögnun verkefnis.

Að mati Guðna voru réttarbætur sem voru innleiddar til að veita almenningi aðkomu að ákvörðunum um framkvæmdir vanhugsaðar þannig að kæruheimildir eru allt of aftarlega í ferlinu.

Það þýðir annars vegar að samfélagslegur kostnaður vegna þeirra tafa og breytinga sem kærur geta leitt til verður mjög hár, eins og nýlegt dæmi vegna laxeldis á Vestfjörðum sýnir okkur, og hins vegar að góðar ábendingar koma í alltof mörgum tilfellum of seint fram til þess að geta haft áhrif á verkið nema til þess að tefja framkvæmd þess,“ skrifar Guðni.

Guðni segir að Benedikt hafi eftir að myndin kom út lagt mikla áherslu á að halda myndinni fram sem innleggi í umræðu um loftslagsmál. „Þar er hann, eins og ungt ljóðskáld benti á í viðtalsþætti í ríkisútvarpinu, kominn í augljósa mótsögn við meginstef myndarinnar sem er að berjast gegn framleiðslu vistvænnar orku og nýtingu hennar fyrir þau framleiðsluferli sem mannkynið telur sér nauðsynleg og fá nú orkuna frá brennslu kola og annars jarðefnaeldsneytis.“

mbl.is