Baktus kominn heim í Gyllta köttinn

Baktus er kominn heim í Gyllta köttinn þar sem honum …
Baktus er kominn heim í Gyllta köttinn þar sem honum líður best. Ljósmynd/Aðsend

Kötturinn Baktus er kominn í leitirnar. Hafdís Þorleifsdóttir, eigandi Baktusar og verslunarinnar Gyllta kattarins, þar sem Bakt­us hefur séð um næt­ur­vörslu í Gyllta kett­in­um í um sex ár, fékk símtal síðustu nótt þar sem henni var tilkynnt að maður hefði tekið Baktus ófrjálsri hendi á Klapparstíg, sest upp í leigubíl og farið með köttinn í Breiðholt.

„Þetta endaði allt vel, sem betur fer,“ segir Hafdís í samtali við mbl.is. Hafdís stóð vaktina í Gyllta kettinum í kvöld, bæði til að sinna jólaösinni en einnig til að vera til staðar ef Baktus skyldi snúa aftur heim. Eiginmaður hennar leitaði í Breiðholti og eftir fimm klukkustunda stanslausa leit ákvað hann að fá sér einn kaffibolla. „Eftir það ákvað hann að þeir myndu finna hvern annan,“ segir Hafdís.

Það gekk eftir. Stuttu eftir að eiginmaður hennar hélt aftur út að leita kom hann auga á mann sem tók upp kött af gangstéttinni. Kötturinn reyndist vera Baktus. Maðurinn hafði verið á göngu með hundinn sinn og sá kött og var sannfærður að um Baktus væri að ræða og ákvað þá að skila hundinum heim til að koma í veg fyrir að Baktus yrði hræddur.

„Við munum sko launa honum. En maðurinn minn var svo hrærður að hann tók niður nafn og símanúmer hjá honum og við munum hafa samband við hann á morgun,“ segir Hafdís.

Margmenni fagnaði Baktusi

Hópur fólks hafði safnast saman í Gyllta kettinum og tók Baktusi fagnandi þegar hann koma aftur heim. Síðasti sólarhringur hefur greinilega tekið mikið á og steinsofnaði Baktus fljótlega eftir heimkomuna. Hafdís veit enn ekki hvað manninum sem tók Baktus gekk til. „En það skiptir ekki öllu máli. Baktus er að minnsta kosti kominn heim,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert