Kaupmenn finna fyrir áhrifum kjaradeilna

Margrét Sanders segir að merkja hafi mátt áhrif kjaradeilna á …
Margrét Sanders segir að merkja hafi mátt áhrif kjaradeilna á verslun strax í haust. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Komandi kjaraviðræður gætu haft áhrif á útsölur sem margar verslanir blása til eftir jólavertíð en í samtali við mbl.is segir Margrét Sanders, formaður stjórnar samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), að kaupmenn hafi fundið áhrif kjaradeilnanna snemma. „Við merktum það strax í haust. Það voru margir sem höfðu á því orð að um leið og kröfurnar komu fram var eins og fólk drægi saman seglin. Óvissa er aldrei góð og það er mikil óvissa í þessum málum núna,“ segir Margrét.

Vona það besta

Aðspurð hvort kaupmenn geti undirbúið þetta með einhverjum sérstökum hætti segir Margrét:„Í raun er þetta eins hjá kaupmönnum og öllum atvinnurekendum í landinu. Menn eru að búast við því versta en vona það besta.“

Tilkoma afsláttardaga í nóvember á borð við Svartan Föstudag og Netmánudag ættu þó ekki að hafa áhrif á útsölurnar segir Margrét. „Ég held að þessir dagar efli miklu frekar jólaverslunina sem slíka. Það er ekki að merkja að þeir hafi endilega áhrif á útsölur.“

mbl.is