Verður að fara að sjást til lands

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Eggert

„Það er alveg á hreinu að nú þarf að fara að sjást til lands fyrr heldur en seinna og koma í ljós hvort menn ná saman eða ekki,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness (VLFA), í samtali við mbl.is um stöðuna í kjaraviðræðum í byrjun nýs árs. Fundað verður næst í kjaradeilu VR, Eflingar og VLFA hjá ríkissáttasemjara 9. janúar.

Þannig verði eitthvað að fara að gerast á næstu dögum. Ljóst megi vera að þolinmæði í þeim efnum fari minnkandi innan verkalýðshreyfingarinnar. Yfir 80 kjarasamningar losnuðu um áramótin og tvöföld sú tala samninga losnar í lok mars. „Þá kemur allur opinberi markaðurinn, ríki og sveitarfélög. Þannig að verkefnið er ærið fram undan.“

„Tíminn er í rauninni útrunninn, það liggur bara fyrir,“ segir Vilhjálmur. Ljóst sé að þegar kjarasamningar eru lausir kosti það launafólk milljarða króna í rýrari kjörum á meðan ósamið er miðað við það ef nýir samningar lægju fyrir með kjarabótum því til handa. „Þannig að áskorunin sem fram undan er er gríðarleg og ábyrgð manna mjög mikil.“

VLFA afturkallaði samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu í lok síðasta árs og fylgdi þar með fordæmi Eflingar. Saman mynduðu félögin tvö bandalag með VR og vísuðu síðan kjaradeilu sinni við atvinnurekendur til embættis ríkissáttasemjara. Fyrsti fundur hjá embættinu vegna kjaradeilunnar var haldinn á milli jóla og nýárs.

mbl.is

Bloggað um fréttina