Kallar til fleiri aðstoðarsáttasemjara

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. mbl.is/​Hari

Ríkissáttasemjari hefur tekið ákvörðun um að nýta lagaákvæði sem heimilar embættinu að fjölga aðstoðarsáttasemjurum, en samkvæmt lögum er það borgaraleg skylda að taka að sér aðstoðarsáttasemjarastarf sem aðeins ráðherrar og hæstaréttardómarar eru undanþegnir. Hefur verið ákveðið að kalla til 8-10 manna hóp aðstoðarsáttasemjara.

Fram kemur á fréttavef Ríkisútvarpsins að til þessa hafi aðeins einn aðstoðarsáttasemjari verið ríkissáttasemjara til aðstoðar. Mikil samningatörn er hins vegar fram undan. Þannig losnuðu rúmlega 80 kjarasamningar um áramótin og tvöfalt fleiri munu losna í lok mars. Haft er eftir Bryndísi Hlöðversdóttur að hún voni að þetta auki skilvirknina hjá embættinu.

Bryndís segir að ekki sé víst að öllum kjaradeilum verði vísað til embættisins en mikilvægt að vera undirbúin. Tilkynnt verði í næstu viku hverjir verði valdir sem aðstoðarsáttasemjarar en umræddir einstaklingar verða ekki ráðnir til embættis ríkissáttasemjara heldur sé um að ræða fólk í öðrum störfum sem koma til aðstoðar sem verktakar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert