Virðulegar konur sem hlæja að kúk

„Við erum bara virðulegar konur hlæjandi að kúk,“ segir Karen Björg Þorsteinsdóttir, ein af fimm konum í uppistandsteyminu Bara góðar. Það lýsi vel stemningunni í hópnum en þær kynntust á uppistandsnámskeiði hjá Þorsteini Guðmundssyni og ætla nú að kitla hláturtaugar landans. Sú yngsta er 25 ára en sú elsta 83 ára. 

Í myndskeiðinu er rætt við Karen Björgu Þorsteinsdóttur, Hildi Birnu Gunnarsdóttur og Kristínu Maríu Gunnarsdóttur um uppistandið en þær ætla að troða upp í Þjóðleikhúskjallaranum síðar í mánuðinum.

Þær segja það í raun hafa verið tilviljun að hópurinn sé einungis skipaður konum. „Þetta var í raun ekkert skipulagt af því að við erum konur, það vildi bara svo til að við erum svo ógeðslega fyndnar,“ segir Hildur Birna en auk þeirra þriggja eru þær María Guðmundsdóttir, 83 ára, og Anna Þóra Björnsdóttir, 56 ára, í hópnum.

Umfjöllunarefni þeirra í gríninu snýr mest að hversdagslegum hlutum og eigin veruleika. Þar er af nægu af taka segja þær. María grínast með veruleika ellilífeyrisþega á meðan Karen fjallar um að flytja til borgarinnar frá Grenivík. Spurðar hvort það kæmi til greina að hafa karla með í hópnum er svarið einróma: „já“. „Ef þeir eru nógu fyndnir,“ bætir Hildur Birna við.

Talið berst að uppistandsnámskeiðinu hjá Þorsteini sem þær segja alls kyns fólk hafa sótt. „Það var fólk þarna sem ætlaði ekkert að fara út í uppistand. Það var tónlistarmaður þarna sem vildi vera skemmtilegur á milli laga og gaman að sjá fólk sem maður átti alls ekkert von á að væri fyndið en svo kom í ljós að það var alveg óheyrilega fyndið. Það er alls konar fólk sem getur þetta,“ segir Hildur Birna.   

Bara góðar koma fram á Þjóðleikhúskjallaranum 20. janúar.

mbl.is