Nálgunarbann vegna ofbeldis og hótana

Landsréttur staðfesti úrskurð um tveggja mánaða nálgunarbann.
Landsréttur staðfesti úrskurð um tveggja mánaða nálgunarbann. mbl.is/Hanna

Landsréttur staðfesti í síðustu viku úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra um tveggja mánaða nálgunarbann yfir manni sem er grunaður að hafa beitt konu sína heimilisofbeldi. Hann má hvorki koma innan 25 metra umhverfis dvalarstað hennar eða vinnustað né hafa samskipti við hana.

Í úrskurði héraðsdóms sem Landsréttur staðfesti er farið yfir greinargerð lögreglu vegna málsins sem og lögregluskýrslur og dagbókarfærslur vegna fyrri afskipta lögreglu af manninum. Þar kemur fram að konan og maðurinn hafi kynnst fyrir tveimur og hálfu ári en þá hafi konan búið erlendis. Hún hafi þó fljótt flutt til Íslands og gifst manninum og þau búið saman.

Konan flutti tímabundið af heimilinu eftir ofbeldi og hótanir sem komu upp 15. september síðastliðinn. Í úrskurðinum segir að maðurinn hafi ákveðið að selja hús þeirra hjóna og hótað konunni lífláti ef hún myndi ekki skrifa undir skjöl þess efnis. Maðurinn er einnig sagður hafa krafist þess að hún undirritaði skjöl um skilnað þar sem hún afsalaði sér eignum en að konan hafi neitað.

Veitti henni eftirför á leið úr kirkju

Þá er hann sagður hafa veitt konunni eftirför þegar hún var á heimleið frá kirkju og kallað til hennar hótanir og niðrandi orð, ítrekað komið á vinnustað hennar og svo er hann sakaður um að hafa hrint henni harkalega.

Maðurinn á að hafa lýst því yfir að hann hafi ekki viljað lifa án hennar en síðan hótað því að ef hann fengi ekki alla peninga þeirra „væri út um hana“ sem konan túlkaði sem lífslátshótun. Hann hafi einnig hótað henni lífláti ef hún myndi halda skilnaðinum til streitu.

Konan kvaðst hafa orðið fyrir miklu símaónæði til viðbótar af hálfu mannsins og lýsti því fyrir lögreglu að hún óttaðist mjög um öryggi sitt, sérstaklega eftir að hún leitaði til lögreglu.

„Ekkert heyrðist nema öskur, grátur og skruðningar“

Í úrskurðinum eru fleiri tilvik reifuð þar sem lögregla þurfti að hafa afskipti af manninum vegna meints ofbeldis og hótana í garð konunnar.

Í maí 2017 hringdi konan á aðstoð og þegar lögreglu bar að garði sat konan grátandi upp við vegg og lýsti því hvernig maðurinn hafi rifið í hár hennar og hent henni í gólfið. Hann hafi svo sparkað í höfuð hennar og hótað henni lífláti. Miklir áverkar voru á konunni samkvæmt læknisvottorði.

Í mars á síðasta ári hringdi konan í Neyðarlínu „en ekkert heyrðist nema öskur, grátur og skruðningar“, segir í úrskurði héraðsdóms. Lögregla fór á vettvang og fann konuna með áverka víða um líkamann. Konan óskaði þá eftir aðstoð við að flytja frá eiginmanni sínum.

Nálgunarbannið afmarkast við 25 metra radíus umhverfis dvalarstað konunnar. Jafnframt er lagt bann við því að maðurinn setji sig í samband við brotaþola, nálgist hana á almannafæri, á vinnustað hennar eða hafi samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt. Bannið gildir eins og áður segir í tvo mánuði.

mbl.is