Ólíkar reglur um réttindi flugfarþega

Þrír kostir standa til boða hjá WOW air ef flugi …
Þrír kostir standa til boða hjá WOW air ef flugi er aflýst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfarþegar njóta mikilla réttinda í flugi til og frá Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss, að því er fram kemur á heimasíðu Samgöngustofu. Þar er fjallað sérstaklega um réttindi samkvæmt tiltekinni reglugerð ESB. Til að þau séu í gildi þarf flugið annaðhvort að fara frá EES-landi og á það við um öll flugfélög, eða að koma til EES með EES-flugrekanda. Sé fluginu aflýst á farþeginn rétt á vali á milli annars flugs sem flugfélagið útvegar eða endurgreiðslu farmiðans, svo lengi sem EES-reglur ná yfir flugið. Farþeginn gæti eftir atvikum einnig átt rétt á skaðabótum.

Neytendasamtökin hafa fengið nokkurn fjölda fyrirspurna um réttarstöðu flugfarþega vegna þess að WOW air hefur aflýst flugferðum til Indlands, að því er segir á heimasíðu félagsins (ns.is).

„Farþegar hafa þá kvartað undan því að þeim hafi eingöngu verið boðinn sá valkostur að fá endurgreiðslu á farmiðum, þá ýmist í formi peninga eða gjafabréfs. Þeir einstaklingar sem leitað hafa til samtakanna hafa þá velt fyrir sér hvort aðrir möguleikar ættu ekki að standa þeim til boða,“ segir í fréttinni.

Endurgreiðsla, gjafabréf eða breyting á flugi

Hjá WOW air fengust þær upplýsingar að farþegum sem lentu í því að flugi þeirra væri aflýst stæði þrennt til boða: Að fá flugfarið endurgreitt, að fá gjafabréf með WOW air að hærri fjárhæð en sem nemur andvirði flugfarsins eða að breyta flugi sínu yfir á annan áfangastað WOW air eða á aðra dagsetningu til sama áfangastaðar, sé það í boði. Þá sagði í skriflegu svari WOW air:

„Sem alþjóðlegt flugfélag, þá ber okkur skylda til að vinna eftir reglum hvers ríkis fyrir sig. Á milli Indlands, Evrópu og Norður-Ameríku gilda mismunandi reglur um réttindi farþega. Á það sérstaklega við þegar um aflýsingar af þessu tagi er að ræða. Til dæmis má nefna að farþegar sem eiga flug frá Bandaríkjunum til Indlands í gegnum Keflavík eiga aðeins rétt á endurgreiðslu en ekki að vera komið fyrir í flugi með öðrum flugrekanda.

Evrópska reglugerðin sem Samgöngustofa vísar í gengur út frá því farþegum sé komið á leiðarenda með sambærilegum flutningsskilyrðum eins fljótt og auðið er eða seinna meir við fyrsta hentugleika. Þetta hefur ekki verið skilgreint með nákvæmari hætti í framkvæmd. Flugrekendur hafa ákveðið svigrúm til þess að koma farþegum fyrir í öðru flugi í sínu eigin leiðakerfi en ef það er ekki mögulegt þá geta farþegar krafist þess að fá farmiða með öðrum flugrekendum. Meti WOW air aðstæður svo að farþegar eigi rétt á því að vera komið á áfangastað af hálfu WOW air, þá gerir félagið allt sem í okkar valdi stendur til þess að verða við beiðni farþega.“ gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »