Margir vilja seinka klukkunni

Skammdegið er mörgum þungbært.
Skammdegið er mörgum þungbært. mbl.is/Hari

Það er greinilega mjög umdeilt meðal Íslendinga hvernig skuli haga staðartíma á Íslandi. Hátt í tvö hundruð manns hafa sent umsögn inn á samráðsgátt Stjórnarráðsins síðan hún var opnuð í dag. Skoðanir eru skiptar en fljótt á litið virðast mjög margir hlynntir því að seinka klukkunni um eina klukkustund.

Greinargerðin „Staðartími á Íslandi — stöðumat og tillögur“ þar sem skoðað er hvort eigi að breyta klukkunni á Íslandi var birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins í dag.

Grein­ar­gerðin var unn­in í for­sæt­is­ráðuneyt­inu og í henni er skoðað hvort færa eigi staðar­tíma nær sól­ar­tíma miðað við hnatt­ræna legu lands­ins.

Þrír valkostir voru settir fram og býðst landsmönnum nú að taka þátt í samráði og leggja fram sín sjónarmið um stöðumat, framtíðarsýn og áhrif mögulegra breytinga. Í kjölfarið verður unnið úr ábendingum og stefna mótuð af hálfu stjórnvalda.

Valkostirnir eru:

A. Óbreytt staða, klukk­an er áfram 1 klst. fljót­ari en ef miðað væri við hnatt­stöðu, en með fræðslu er fólk hvatt til að ganga fyrr til náða.

B. Klukk­unni seinkað um 1 klst. frá því sem nú er, í sam­ræmi við hnatt­stöðu lands­ins (dæmi: kl. 11:00 nú verður kl. 10:00 eft­ir breyt­ingu).

C. Klukk­an áfram óbreytt en skól­ar og jafn­vel fyr­ir­tæki og stofn­an­ir hefja starf­semi seinna á morgn­ana.

„Hver og einn ræður sínum forgangstíma“

Pálmey Elín reið á vaðið og sendi inn fyrstu athugasemd um málið í dag – hún sagði: „Það á að mínu mati að láta klukkuna í friði. Það er ekki henni að kenna að fólk fer of seint að sofa, fyrir utan það að hnattstaða okkar gerir það að verkum að klukkan verður öðru hvoru afstæð og við verðum bara að lifa með því. Það er alls ekki klukkunni að kenna hvað fólk er með mörg verkefni í gangi og þarf að sinna mörgu, þetta er meira spurning um forgangsröðun hjá hinum almenna borgara. Hver og einn ræður sínum tíma sjálfur klukkan segir bara hvað honum líður.“

Í kjölfarið á athugasemd Pálmeyjar eru nokkrir sem sem tjá sig og flestir vilja þeir seinka klukkunni. Þó ekki allir.

Fólk býr til vandamál, svo „lausnir“

Leifur gerir athugasemd við forsendur greinargerðarinnar: „Valkostur A er bestur - og tel raunar enga þörf á fræðslu um eitt eða neitt, það er ekkert vandamál sem þarfnast úrlausnar, bara fólk með of mikinn frítíma sem fyrst býr til vandamál, svo "lausnir". Annars er forsendunum rangt lýst, í Reykjavík og nágrenni (þar sem helmingur þjóðarinnar býr) er hádegi um klukkan 13:34, það ætti sem sagt að breyta klukkunni um TVÆR klukkustundir ef sólarstaða ætti að ráða för.“

Næsti ræðumaður er Jakob Helgi og finnst honum lítið vit í valkosti númer þrjú. [„C.“]

„Valkostur 3 er gagnslaus, og myndi bara skapa meiri vandræði í lífum Íslendinga. Búinn í vinnuni [sic] klst síðar? Minni tími eftir af deginum seinnipartinn. Mæta klst seinna? Fólk myndi bara fara að sofa seinna og vakna seinna og það myndi auka vandamálið frekar en að bæta það á nokkurn hátt. Ég er sammála valkosti 2: Seinka klukkuni [sic] um 1 klst.“

Margar B-manneskjur

Margir sjá kostina við að seinka klukkunni og færa flestir rök fyrir þeirri afstöðu sinni – Þó ekki allir því sumir láta sér nægja að skrifa einungis „B“.

„B. Klukkunni seinkað um 1 klst. frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins (dæmi: kl. 11:00 nú verður kl. 10:00 eftir breytingu),“ segir Bjarki og margir fylgja eftir með svipaðri athugasemd:

„Ég styð það að nýta vísindalegar rannsóknir til að bæta lífsgæði og vel þar af leiðandi kost B“.

„Valkostur B er valið. Við eigum að vera á réttum beltatíma og er það talið til mikilla bóta heilsufarslega og mun betra að það birti fyrr á morgnana. Fólki líður betur þegar líkamsklukkan er samstíga sólarklukkunni.“

„Af þessum kostum er B álitlegastur. Ég undrast reyndar að ekki sé fjórði kosturinn í boði en það væri að taka upp sumar- og vetrartíma eins og er víðast í nágrannalöndunum.“

„Leið B ekki spurning. Verum á réttum stað.“

Vill kosningar um klukkuna

Andrés nokkur setur fram málefnalega tillögu sem væri líklega nokkuð sanngjörn:

„Ég fagna þessum tillögum. Ég vil benda á að í USA og víðar er kosið almennum kosningum um hvernig menn vilji hafa klukkuna. Mér finnst rétt að prófa þessi 3 úrræði (búið að prófa úrræði 1), fólk fær reynsuna [sic] í eitt ár og síðan verður kosið bindandi kosningu um hvernig menn vilji hafa klukkuna. Kosningarnar verði samtímis öðrum kosningum, Alþingis, forseta eða sveitarstjórnarkosningum.“

Heiða María doktor í sjónrænum taugavísindum og lektor í sálfræði styður valkost B auk þess að styðja „einhverja útgáfu af lið C“ sem hún rökstyður vísindalega:

„[…]Ekki er ýkja langt síðan uppgötvaðar voru aðrar ljósnæmar frumur í auganu, svokallaðar "photosensitive ganglion cells", sem gegna mikilvægu hlutverki í að stilla líkamsklukkuna. Þessar frumur senda boð um ljósmagn til yfirkrossbrúarkjarna (suprachiasmatic nucleus, SCN) í undirstúku (hypothalamus) sem virðist stjórna dægursveiflum (circadian rhythms).[…]“

Sjaldséð „C“

Örsjaldan sjást athugasemdir þar sem mælt er með því að velja valkost C eða valkost númer þrjú. Berglind er ein af þeim sem vill sjá klukkuna áfram óbreytta en að stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.

Hún segir: „C. Klukkan áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefja starfsemi seinna á morgnana. Mér finnst þetta ekki spurning. Ég vil ekki að dagurinn styttist í hinn endann. Bara fara hægt og rólega inn í daginn í skammdeginum.“

Unglingar yrðu jafn syfjaðir á morgnana

„Að breyta klukkunni væri það vitlausasta sem hægt væri að gera. Það er vísindalega sannað að líkamsklukka Íslendinga er út um allt. Það stafar af því að hér er bjart hálft árið og myrkur hinn helminginn. Þótt að klukkunni væri breytt um 5 klst. yrðu unglingar jafn syfjaðir á morgnana,“ segir Haraldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina