Húsaleiga framhaldsskóla hækkaði um 129 milljónir

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata vildi vita hversu mikið húsaleiga …
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata vildi vita hversu mikið húsaleiga framhaldsskóla hefði hækkað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hækkun á húsaleigu íslenskra framhaldsskóla nam 129,4 milljónum króna í fyrra, eða um 6%. Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, um húsaleigu framhaldsskóla.

Spurði Björn Leví ráðherra hversu mikið húsaleiga skólanna hefði hækkað 2018 og hversu mikið fjárveitingar til húsaleigu framhaldsskóla hefðu aukist það ár. 

Í svari ráðherra segir að skólarnir hafi fengið tímabundna 12% lækkun húsaleigu í kjölfar efnahagshrunsins, enda hafi þá þrengt mjög að fjárhag stofnana. Í apríl 2017 tilkynntu Ríkiseignir leigutökum sínum hins vegar að frá og með 1. janúar 2018 yrði afslátturinn afnuminn og leiga innheimt samkvæmt gildandi samningum. Miðað við þetta hafi húsaleiga framhaldsskólanna átt að hækka um alls 258,8 milljónir króna á ársgrundvelli. 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi þá farið þess á leit við fjármála- og efnahagsráðuneytið að skólunum yrði bætt afnám afsláttarins með einhverjum hætti þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir hækkun útgjalda vegna leigugreiðslna í fjármálaáætlun og fjárlagagerð fyrir árið 2018.

Fjármálaráðuneytið svaraði því til að margvísleg rök væru fyrir afnámi afsláttarins og að ljóst hefði verið frá upphafi að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða og að stofnanir myndu á einhverjum tímapunkti þurfa að greiða fullt leiguverð. Var í svörum fjármálaráðuneytis m.a. bent á að afslátturinn hefði til að mynda skert þá fjármuni sem séu til ráðstöfunar til viðhalds- og endurnýjunar á húsnæði ríkisstofnana og að brýnt sé orðið að ráðast í margar slíkar framkvæmdir.

„Þrátt fyrir framangreint var fjármála- og efnahagsráðuneytið tilbúið að fallast á að framhaldsskólar nytu á árinu 2018 ígildis helmings þess afsláttar sem áður var í gildi, eða 6%, en afnám afsláttar gilti áfram fyrir aðrar stofnanir sem og fyrir allar stofnanir á árinu 2019,“ segir í svörum menntamálaráðherra.

Hafi fjármálaráðuneytið með þessu talið sig koma til móts við beiðni menntamálaráðuneytisins, en hafi jafnframt lagt áherslu á að um einskiptisráðstöfun væri að ræða sem takmörkuð væri við framhaldsskólana. Hækkun á húsaleigu hjá framhaldsskólum á árinu 2018 hafi því verið 129,4 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert