Lægri hraða fremur en brýr og göng

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs. mbl.is/Hari

„Það er að lækka hraða. Það er fyrst og fremst hraðinn,“ sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúi Pírata í Bítinu á Bylgjunni í morgun, spurð út í það hvernig mætti auka öryggi gangandi vegfarenda við Hringbraut, ef ekki með undirgöngum eða brúm.

Sigurborg sagði við þáttastjórnendur að hugmyndir um brýr og undirgöng ættu ekki við í þéttu borgarumhverfi eins og væri við Hringbraut og að allar rannsóknir hefðu sýnt fram á að lækkaður hraði leiddi til færri slysa og minnkandi alvarleika slysanna. Minni hraði gerir líka „margt annað frábært“ að sögn Sigurborgar, eins og það að auka fjölda gangandi og hjólandi og minnka hljóðmengun.

„Þegar þú minnkar hraðann þá eykur þú öryggistilfinningu fólks og það er grundvallaratriði til að fá fleiri til að ganga og hjóla að auka þessa öryggistilfinningu, það er að segja að þér líði vel og þér líði eins og þú sért öruggur,“ sagði Sigurborg, sem ræddi þessi mál einnig við mbl.is fyrr í vikunni.

Hringbrautin „skaðvaldur“ í hverfinu

Miklar umræður hafa skapast um öryggi gangandi vegfarenda á Hringbraut eftir að keyrt var á 13 ára gamla stúlku á leið í skóla fyrr í vikunni. Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, skrifaði um málið í hverfishópi Vesturbæinga á Facebook í gær, en þar sagði hann meðal annars að eina lausnin væri að lækka hraðann á götunni, þrengja akreinarnar, breikka gangstéttar og bæta lýsingu og hafa hraðamyndavélar í götunni.

Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi.
Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Hringbrautin er algjör skaðvaldur í okkar góða hverfi. Það er t.d. staðreynd að börn norðan Hringbrautar njóta ekki jafnræðis þegar kemur að aðgengi að tómstundaiðkun á KR svæðinu. Tölur sýna að miklu færri krakkar í gamla Vesturbænum stunda tómstundir en þau sem búa sunnan megin. Ástæðan er fyrst og fremst Hringbrautin. Í öðru lagi er Hringbrautin uppspretta mengunar - bæði þeirrar sem við öndum að okkur og hávaðamengunar. Hvort tveggja myndi batna verulega með lækkuðum hraða,“ skrifar Gísli Marteinn, sem segir það einnig „himinhrópandi rugl að við þurfum að óttast um líf okkar og barnanna okkar ef við viljum komast yfir götuna.

„Vörum okkur á þeim sem leggja til að gangandi verði settir annaðhvort ofan í jörðina í undirgöng eða upp á býr,“ skrifar Gísli Marteinn og segir að slík mannvirki séu fyrst og fremst studd af þeim sem ekki vilji hægja á umferðinni og gerðu það að verkum að þeir sem ætli yfir götuna á öðrum stöðum en þar sem væru brýr eða undirgöng væru í „enn meiri lífshættu en núna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert