Ákærður fyrir að keyra á nágranna sinn

Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Suðurlands.
Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Suðurlands. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa í desember árið 2017 ekið bifreið sinni á nágranna sinn þar sem hann stóð í heimreiðinni að heimili ákærða í Flóanum á Suðurlandi.

Samkvæmt ákæru féll nágranninn aftur fyrir sig og hafnaði uppi á vélarhlíf bifreiðarinnar þegar keyrt var á hann. Þegar hann komst á fætur keyrði maðurinn stöðugt áfram að nágranna sínum sem hörfaði undan bifreiðinni með hendur sínar á vélarhlífinni. Hafnaði nágranninn að lokum aftur uppi á vélarhlífinni, en þá ók maðurinn milli trjágróðurs og út á aðliggjandi tún meðan nágranninn var enn upp á vélarhlífinni. Tók hann þar skarpa beygju svo nágranninn féll á jörðina og varð hann undir öðru afturhjóli bifreiðarinnar.

Hlaut maðurinn sem keyrt var á fjölmörg yfirborðssár og eymsli vegna atviksins, en var þó óbrotinn. Sem fyrr segir er ákært fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, en slíkt getur varðað allt að 16 ára fangelsi.

Af hálfu nágrannans er farið fram á 1,5 milljónir í miskabætur vegna atviksins.

Mennirnir eiga sér langa sögu saman og hafa átt í deilum í yfir áratug. Var sá sem keyrt var á meðal annars dæmdur í héraðsdómi á síðasta ári fyrir líkamsárás gegn manninum sem nú er ákærður auk þess að koma fyrir grjóti á heimreið sama manns og loka þannig fyrir umferð og raska umferðaröryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert