Ekki vitað hve margir fá endurgreitt

Enn er óljóst hversu margir gætu átt rétt á endurgreiðslu …
Enn er óljóst hversu margir gætu átt rétt á endurgreiðslu frá Tryggingastofnun. mbl.is/Ófeigur

Enn er ekki ljóst hversu margir gætu átt rétt á leiðréttingu greiðslna frá Tryggingastofnun vegna ágalla í útreikningi örorkulífeyris þeirra sem hafa búið hluta ævinnar erlendis. Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar, segir í samtali við mbl.is þetta meðal þess sem kom fram á fundi nefndarinnar í dag.

Áður hefur verið greint frá því að 1.024 einstaklingar eiga rétt á endurgreiðslum frá stofnuninni allt að fjögur ár aftur í tíma og skiptir upphæðunum á milljörðum króna. Ekki verður vitað hver endanleg upphæð verður fyrr en vitað er hversu margir hafi rétt á endurgreiðslu.

Tryggingastofnun veitti þingmönnum þær upplýsingar í dag að enn sé verið að skoða mál einstaklinga sem útreikningarnir hafi hugsanlega varðað. „Það er ljóst að þetta mun taka tíma,“ segir Halldóra.

Öryrkjabandalag Íslands hefur gefið það út að samtökin telja umrædda útreikninga ná aftur til ársins 2009. Jafnframt er hugmyndum um fyrningu krafna þeirra einstaklinga sem hafa fengið bætur sínar skertar og að endurgreiðslur muni aðeins ná fjögur ár aftur í tíma hafnað.

Spurð um þann þátt málsins segir Halldóra ekki komið á hreint hvert framhaldið verður, en ráðherra mun mæta á fund velferðarnefndar í næstu viku.

Félagsráðuneytið tjáði mbl.is í skriflegu svari í gær að fjögurra ára fyrningarfrestur „var sú niðurstaða sem sérfræðingar ráðuneytisins meta að sé rétt“. Tekið var sérstaklega fram að málið sé á forræði Tryggingastofnunar og mun stofnunin afgreiða málið án beinnar aðkomu ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert