Viðtalið ekki á fölskum forsendum

Páll Magnússon
Páll Magnússon mbl.is/RAX

Páll Magnússon, alþingismaður og fyrrverandi útvarpsstjóri, segir að ljóst sé að viðtal sem tekið var við Elínu Björg Ragnarsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka fiskiframleiðenda og útflytjenda og birt í fréttaskýringarþættinum Kastljósi árið 2012 hafi ekki verið tekið á fölskum forsendum.

Upphaf málsins má rekja til þess að Elín var fengin í viðtal hjá Kastljósi þar sem rætt var við hana almennt um samkeppnislega mismunun í innlendri fiskvinnslu og nauðsyn aðskilnaðar veiða og vinnslu. Viðtalið var ekki birt strax, en notað síðar í umfjöllun Kastljóss um meint brot útgerðarfélagsins Samherja á gjaldeyrislögum. Þess skal getið að niðurstaða þess máls var að ákvörðun Seðlabanka Íslands um að beita stjórnvaldssekt gegn Samherja var felld úr gildi og hefur forsætisráðuneytið nú óskað eftir greinargerð frá bankaráði bankans vegna málsins.

Elín sagðist hafa sent útvarpsstjóra, Kastljósinu og fréttastofu RÚV tölvupóst vegna málsins en engin svör fengið. Sigmar Guðmundsson, þáverandi ritstjóri Kastljóssins hefur sagt að fréttamenn þáttarins hafi í kjölfarið árangurslaust reynt að ná í Elínu vegna málsins.

Elín Björg Ragnarsdóttir.
Elín Björg Ragnarsdóttir.

Í morgun var haft eftir Páli að það væri grafalvarlegt mál ef lýsing Elínar væri rétt og að þá væri um fréttafölsun að ræða.

Páll skrifaði í Facebook-færslu seinni partinn í dag að hann hefði horft á umræddan Kastljósþátt sem sýndur var fyrir 6 árum. Segir hann að þar sé skýrt tekið fram að títtnefnt viðtal við Elínu hafi verið tekið áður en kunnugt var um að rannsókn væri hafi á Samherja. „Því verður því ekki haldið fram með réttu að viðtalið hafi verið tekið og birt á fölskum forsendum. Rétt skal vera rétt,“ segir Páll að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert