Mátti ekki sekta Samherja

Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, sem taldi Seðlabankanum ekki hafa …
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, sem taldi Seðlabankanum ekki hafa verið heimilt að sekta Samherja. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl í fyrra um að felld skyldi úr gildi 15 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á fyrirtækið Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum.

Gjaldeyriseftirlit Seðlabankans taldi fyrirtækið hafa brotið gjaldeyrislög og stóð fyrir húsleit hjá Samherja árið 2012. Seinna tók sérstakur saksóknari við málinu, en hann ákvað að fella niður sakamál vegna þessara meintu brota. Ákvað Seðlabankinn þá að beita stjórnvaldssektum upp á 15 milljónir króna.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti kom m.a. fram að í málinu hafi „ekkert komið fram um að ákvörðun Seðlabanka Íslands um að hefja meðferð máls Samherja að nýju hafi byggst á nýjum gögnum.“  Seðlabankinn hafi ekki með neinum hætti sýnt fram á við meðferð málsins á hvaða grundvelli honum hafi verið heimilt að taka málið upp að nýju.

Að mati dómsins var hins vegar „ríkt tilefni til slíks rökstuðnings“, einkum vegna „þess verulega dráttar“ sem orðið hafði á meðferð málsins hjá Seðlabankanum.

Var Seðlabankanum gert með dómi héraðsdóms að greiða allan málskostnað, eða alls fjórar milljónir króna.

mbl.is