Borðum okkur ekki í gröfina!

Helga Arnardóttir sjónvarpskona.
Helga Arnardóttir sjónvarpskona. Kristinn Magnússon

„Það fjalla mjög margir þættir í sjónvarpi um lífsstíl og við liggur að hugtakið sé komið með óorð á sig. Þess vegna langaði mig að koma úr annarri átt og niðurstaðan varð sú að leggja áherslu á að þetta væri vísindaleg nálgun en án þess þó að hljóma eins og Sigurður H. Richter og Nýjasta tækni og vísindi. Þetta eru með öðrum orðum vísindalegir heimildarþættir um heilsu á mannamáli.“

Þetta segir Helga Arnardóttir sjónvarpskona en á þriðjudag koma inn í Sjónvarp Símans Premium átta nýir heimildarþættir eftir hana undir yfirskriftinni Lifum lengur. Fyrsti þátturinn verður á dagskrá Sjónvarps Símans sama kvöld.

Að sögn Helgu er um faglega umfjöllun að ræða, þar sem rætt er við vísindamenn, sérfræðinga og lækna sem horfa áhyggjufullir upp á alvarlegan heilsubrest í samfélaginu vegna óheilbrigðs lífsstíls. „Við erum að borða okkur í gröfina og hreyfa okkur ekki í gröfina, ef svo má að orði komast, og mikilvægt að grípa hratt og örugglega í taumana,“ segir Helga en einnig er rætt við venjulegt fólk um reynslu þess.

Sjálf hefur hún meira verið í hörðum fréttum og glæpamálum á sínum sjónvarpsferli og segir suma hvá þegar hún upplýsi að hún sé að vinna þætti um heilsu. „Staðreyndin er hins vegar sú að ég hef gengið lengi með þessa þætti í maganum enda fann ég þessi fjögur ár sem ég var í Kastljósinu á RÚV að fólk hefur brennandi áhuga á þessum málum; það vill upp til hópa bæta heilsu sína og fræðast um leiðir að því marki.“

Rætt er við fjölmargra sérfræðinga í þáttunum, þar á meðal dr. Chatterjee Rangan sem er breskur heimilislæknir og metsöluhöfundur. Hann hefur skrifað og fjallað töluvert um fjóra þætti heilsu sem skiptir lykilmáli að halda í góðu horfi til að sporna gegn myndun alvarlegra og þekktra lífstílssjúkdóma sem herja á vestræn samfélög í dag. Þessir heilsufarsþættir samanstanda af svefni, næringu, hreyfingu og andlegri heilsu og verða tveir sjónvarpsþættir helgaðir hverjum þeirra. „Þetta er eldgömul nálgun sem af einhverjum ástæðum hefur gleymst. Það er svo margt sem við getum gert sjálf til að koma í veg fyrir alvarlega sjúkdóma; svo sem að hreyfa okkur meira, vera úti í dagsbirtunni og draga úr neyslu á koffeini. Við plöntum alls kyns fróðleiksmolum hér og þar í þáttunum og tilgangurinn er alls ekki að prédika, heldur fræða og útskýra. Það er ekki nokkur maður dæmdur í þessum þáttum.“

Óvísindalegar tilraunir

Þá eru unnar óvísindalegar sjónvarpstilraunir undir leiðsögn sérfræðinga fyrir þættina þar sem fjallað verður um hvernig breyting á mataræði, aukin hreyfing og fleira getur gerbreytt heilsu fólks á skömmum tíma. Sjálf komst Helga að raun um að góð og markviss hreyfing yfir daginn getur gert sama gagn og að mæta í ræktina. „Þetta kom mér svolítið á óvart en með því að ná átta til tíu þúsund skrefum á dag brenndi ég nánast jafnmörgum kaloríum og ef ég mætti í ræktina. Það sýnir hvað það skiptir miklu máli að setja hreyfingu inn í líf sitt,“ segir hún.

Brennslan dagana sem Helga hreyfði sig var á bilinu 2.400 til 2.800 kaloríur en á „letidögum“ var hún aðeins 1.800 kaloríur. „Reiknað var út fyrir mig að væru allir dagar letidagar myndi ég þyngjast um sextán kíló á ári. Það er ekkert smáræði. Það munar um alla hreyfingu.“
Helga segir gerð þáttanna hafa verið fróðlega og skemmtilega og hyggst halda áfram að hamra járnið með hljóðvarpi og opnun heimasíðunnar lifumlengur.is, þar sem fróðleik um heilbrigðari lífsstíl verður miðlað. „Mig langar að gera meira úr þessu frá ýmsum sjónarhornum; hvetja til heilsubyltingar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert