Kannabisolíu blandað saman við veip-vökva

Kannabis er hægt að reykja í rafrettum. Mynd úr safni.
Kannabis er hægt að reykja í rafrettum. Mynd úr safni. AFP

Lögreglan á Suðurnesjum fann meint fíkniefni, lyf og stera í húsleit í umdæminu sem gerð var nýverið að fenginni heimild. Grunur lék á að þar færi fram fíkniefnaframleiðsla og -sala með þeim hætti að kannabisolíu væri blandað saman við veip-vökva og hann seldur í ágóðaskyni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Þar segir enn fremur að við húsleit hafi talsvert magn af vökvanum verið haldlagt sem og fleiri vökvar í krukkum.

Meint örvandi efni fundust einnig á staðnum sem og kannabis. Þá voru ýmis mæliglös og önnur áhöld haldlögð. Lögregla segir málið í rannsókn.

mbl.is