Heyin skutu þeim á toppinn

Karl Ingi Atlason þakkar góðum heyjum sem aflað var síðustu …
Karl Ingi Atlason þakkar góðum heyjum sem aflað var síðustu tvö sumur góða nyt á kúabúinu á Hóli. Ljósmynd/Hörður Kristjánsson

Afburðagóð hey sem bændurnir á Hóli í Svarfaðardal öfluðu sumrin 2017 og 2018 skjóta þeim á topp listans yfir afurðamestu kúabúin á nýliðnu ári. „Ég held að við höfum aldrei verið með jafngóð hey og þessi tvö sumur. Nytin er ekki að aukast vegna kjarnfóðurgjafar því við höfum heldur minnkað hana.“

Þetta segir Karl Ingi Atlason, bóndi á Hóli, í umfjöllun mjólkurbúskapinn í Morgunblaðinu í dag. Meðalafurðir kúnna á búi Karls Inga og konu hans, Erlu Hrannar Sigurðardóttur, jukust um 546 kíló á milli ára og varð það efst á kúabúalista Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Þetta eru þó bráðabirgðatölur enn sem komið er og leiðréttingar kunni að vera gerðar á einstaka tölum. Árið áður jókst meðalnytin um 600 kíló þannig að stökkið er hátt.

Hólsbúið hefur verið ofarlega undanfarin ár en þó í skugga Brúsastaða í Vatnsdal þar sem Gróa Margrét Lárusdóttir og Sigurður Eggertz Ólafsson reka afburðabú. Brúsastaðir hafa verið afurðamesta búið undanfarin ár og oftast í fyrsta sæti. Karl Ingi gerði sér ekki vonir um að ná efsta sætinu og líkti stöðunni við ensku knattspyrnuna í samtali við Morgunblaðið fyrir ári: „Ég held líka að þetta sé eins og með Manchester City í enska boltanum að ekki er hægt að ná efsta sætinu af þeim.“ Karl er harður Liverpool-maður og vonar að árangur hans í mjólkurframleiðslunni á nýliðinu ári viti á gott í ensku knattspyrnunni og liðið hans haldi efsta sætinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert