Fá ekki að heyra skýrslur hinna

Verjendur bókuðu athugasemdir við þá ákvörðun dómara að leiða ákærðu …
Verjendur bókuðu athugasemdir við þá ákvörðun dómara að leiða ákærðu einn af öðrum í salinn til skýrslutöku. mbl.is/Eggert

Aðalmeðferð hófst í dag í máli þriggja manna, sem ákærðir eru fyrir innherjasvik og hlutdeild í innherjasvikum sem varða viðskipti með hlutabréf í Icelandair Group, en einn mannanna var áður forstöðumaður leiðastjórnunarkerfis Icelandair.

Fram kom við upphaf aðalmeðferðarinnar að málflutningur myndi ekki fara fram um tiltekin ágreiningsatriði, þar sem samkomulag hefði náðst um þau utan réttar.

Dómari tók svo ákvörðun um að leiða ætti ákærðu hvern af öðrum inn í réttarsalinn til skýrslutöku, þannig að þeir gætu ekki hlustað á skýrslugjöf annarra sakborninga í málinu fyrr en þeir hefðu sjálfir gefið skýrslu.

Verjendur allra þriggja ákærðu bókuðu athugasemdir við þessa ákvörðun dómara og einn verjenda spurði hvort þessi ákvörðun dómara, sem hafði ekki verið kynnt, væri kæranleg. Svo var ekki, svo verjendurnir bókuðu allir athugasemdir og sögðu ekki þörf á því að hafa skýrslugjöfina með þessum hætti.

Dómari bað fjölmiðlafólk í Héraðsdómi Reykjavíkur að haga fréttaflutningi sínum með þeim hætti að þessi ákvörðun þjónaði tilgangi sínum og birta ekki fréttir af skýrslugjöf ákærðu fyrr en síðasti sakborningurinn væri byrjaður að gefa skýrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert