Mátti afhenda gögn um uppreist æru

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðuneytið braut ekki gegn lögum um persónuvernd þegar það afhenti fréttamönnum gögn um þá sem hlotið höfðu uppreist æru frá árinu 1995 haustið 2017. Þetta er niðurstaða Persónuverndar, en einn þeirra einstaklinga sem fengið hafa uppreist æru sendi kvörtun til stofnunarinnar vegna ákvörðunar ráðuneytisins sama dag og tilkynnt var að gögnin yrðu afhent fréttamönnum sem óskað hefðu eftir þeim.

Kvörtunin til Persónuverndar var reist á þeim rökum að það varðaði við hegningarlög að yfirleitt ræða mál einstaklings opinberlega sem fengið hefði æru sína uppreista. Persónuvernd kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu, sem fyrr segir, að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins hafi verið í samræmi við lög. 

Úrskurðurinn var kveðinn upp 20. desember síðastliðinn, en birtur á vef Persónuverndar í dag.

Fram kemur í niðurstöðu Persónuverndar að samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu hafi upplýsingar um heilsuhagi verið felldar brott ásamt öðrum upplýsingum sem taldar hafi verið að féllu undir það að vera viðkvæmar persónuupplýsingar.

„Jafnframt hafi verið felldar brott upplýsingar um nöfn einstaklinga sem hlotið hefðu dóma þar sem dómari hefði ákveðið að dómur skyldi birtur án nafns hins sakfellda. Þá liggur fyrir að afhendingin byggðist á upplýsingalögum, að um var að ræða sams konar gögn og úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði talið skylt að afhenda samkvæmt áðurnefndum úrskurði nefndarinnar, sem og að í samræmi við það sem fyrr segir voru gögnin engu að síður nafnhreinsuð í tilviki kvartanda, ólíkt því sem gert var ráð fyrir í úrskurðinum,“ segir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert