Minnihluta refsað vegna Miðflokksins

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Eggert

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir stjórnarmeirihlutann refsa stjórnarandstöðunni fyrir gjörðir Miðflokksmanna með því að hirða eitt þriggja formannsembætta minnihlutans af Bergþóri Ólasyni.

Þetta kemur fram í færslu Þórhildar Sunnu á Facebook. Hún segir stjórnarmeirihlutann hingað til ekki hafa þorað að taka afstöðu í málinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir minnihlutans til þess að finna ásættanlega lausn á málinu.

Þórhildur Sunna segir að í kjölfarið á þöglum mótmælum þingmanna Pírata í þingsal í gær verði þögnin rofin.

„Nú er komið í ljós að næstbesta staðan fyrir Miðflokkinn var valin af stjórnarmeirihlutanaum [sic] sem ákveður að refsa okkur í stjórnarandstöðunni með því að setja sinn mann í formanns[s]tól nefndarinnar. Meirihlutinn notfær[i]r sér óþol okkar fyrir Bergþóri Ólafssyni [sic] í formannsstóli með því að taka til sín stólinn og setur þangað Jón Gunnarsson, skuggasamgöngumálaráðherra Íslands. Þannig græðir stjórnarmeirihlutinn á Klaustursmálinu.“

Þórhildur Sunna fer í færslu sinni einnig hörðum orðum um nokkur ummæli Brynjars Níelssonar, svo sem um þær konur sem sakað hafa Jón Baldvin Hannibalsson um kynferðislega áreitni, um ábyrgð þolenda vændis og gömul ummæli um barnaníð, og gagnrýnir viðnámsleysi stjórnarmeirihlutans.

mbl.is