„Þetta var ekkert smá“

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

„Finnst okkur sem samfélag í lagi að þetta mál, sem tröllreið öllu á tíma og langflestir voru sammála um að þessi hegðun væri ekki í lagi, að það hafi engar afleiðingar. Viljum við búa í þannig samfélagi að viðkomandi einstaklingar geti bara haldið áfram eins og ekkert hafi ískorist,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um skipun Karls Gauta Hjaltason sem lögreglustjóra í Vestmannaeyjum.

Íris var gestur í Silfrinu á RÚV og var þar spurð út í Facebook-færslu sem hún skrifaði eftir að greint var frá skipan Karls Gauta í embættið. Þar sagði hún Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra væntanlega hafa komist að þeirri niðurstöðu eftir vandlega íhugun að um væri að ræða smekklega og heppilega ráðningu eftir þá kven- og mannfyrirlitningu sem Karl Gauti sýndi henni og fleirum á Klausturbar um árið. En Karl Gauti er einn af Klausturhópnum.

Íris segist aldrei hafa fengið afsökunarbeiðni frá Karli Gauta eða öðrum úr Klausturhópnum.

Verður eflaust misjafnlega tekið 

Spurð út í hvaða skilaboð hún teldi dómsmálaráðherra vera að gefa með þessari skipun, ítrekaði Íris að það væri sérstakt að það hefði ekki áhrif hvernig fólk hefði hagað sér, þó lög hefðu ekki verið brotin

„Ég vænti þess að dómsmálaráðherra hafi skoðað þetta mjög vel, en ég get ekki verið sammála niðurstöðunni. Mér finnst þetta mjög sérstakt. Mér finnst hann allavega ekki gefa okkur og samfélaginu góð skilaboð með því að svona hlutir hafi ekki áhrif.“

Hún segist ekki vilja dæma um það hvernig Karli Gauta verði tekið, enda hafi hann áður verið lögreglustjóri í Eyjum og eigi þar marga vini.

„Eflaust verður það misjafnt hvernig því verður tekið en mér finnst það númer eitt, tvö og þrjú að þetta snúist um hvort okkur finnst það í lagi sem samfélagi að dómsmálaráðherra skipi í embætti, eða menn haldi áfram, án þess að það hafi nokkur áhrif hvernig menn hafa hafa hagað sér gagnvart konum, gagnvart minnihlutahópum. Af því þetta var ekkert smá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert