Ræddu stuðning utanríkisráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Haraldur Jónasson/Hari

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kom á fund utanríkismálanefndar í morgun, ásamt embættismönnum ráðuneytisins, til að ræða málefni Venesúela.

Utanríkisráðherra sagði í samtali við mbl.is á mánudag að íslensk stjórnvöld styði Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem forseta landsins, þar til boðað hefur verið til frjálsra kosninga í landinu. Sú ákvörðun hefur vakið nokkrar umræður og hefur Rósa Björk Brynjólfsdóttir, 1. varaformaður utanríkismálanefndar, m.a. sagt ráðherra ekki hafa haft samráð við nefndina um þessa ákvörðun.

Þá hefur Ögmund­ur Jónas­son, fyrr­ver­andi ráðherra og þingmaður Vinstri grænna, einnig sagst óánægður með stuðningsyfirlýsingu íslenskra stjórnvalda.

„Þarna fóru fram umræður um stuðninginn sem utanríkisráðherra veitti á mánudag, hvernig hann virkaði og hvernig önnur lönd í kringum okkur séu að bregðast við,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, í samtali við mbl.is.

Spurð hvort skiptar skoðanir hafi verið meðal nefndarmanna segir hún svo hafa varla verið. „Það er varla hægt að segja að skiptar skoðanir hafi verið um að láta sig málefni Venesúela varða.  Almennt var nokkuð góður samhljómur nefndarmanna með að það væri ekki óeðlilegt að fylgja Evrópuríkjum eins og Norðurlöndunum að málum varðandi þá ákvörðun að viðurkenna Juan Guaidó sem forseta Venesúela til bráðabirgða,“ segir Áslaug Arna. 

Aðdragandinn að ákvörðun utanríkisráðherra var líka ræddur á fundinum. „Síðan var rætt um það hvernig best er að hafa samband utanríkismálanefndar við ráðherrann þegar svona ákvarðanir eru teknar.“ 

Spurð hvort nefndarmenn og ráðherra hafi verið á einu máli um hvernig slíkt sé best gert kveðst hún telja að alltaf verði skiptar skoðanir um það hvernig best sé að hafa samráð við nefndina.

„Okkur voru sendar upplýsingar áður en þetta var gert og það er mjög gott að fá slíkar upplýsingar, síðan getur fólk haft skiptar skoðanir á því hvort að þetta sé meiri háttar utanríkismál eða ekki,“ segir Áslaug Arna. „Það hafa lengi verið uppi mismunandi meiningar um það hvenær sé nauðsynlegt að boða til fundar og hvenær ekki, en við funduðum um þetta í dag og þetta var mjög góður fundur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert