Ögmundur óhress með stuðning við Guaidó

„Sannast sagna hélt ég að afhjúpun ósanninda um valdaskipti og …
„Sannast sagna hélt ég að afhjúpun ósanninda um valdaskipti og tilraunir til valdaskipta í Írak, Líbíu, Sýrlandi og nú Venesúela, svo nýjustu dæmin séu nefnd, væri nóg til að íslensk stjórnvöld sæju sóma sinn í því að halda sér alla vega til hlés,“ skrifar Ögmundur á vef sinn í kvöld. mbl.is/Hari

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Vinstri grænna, er óánægður með þá afstöðu íslenskra stjórnvalda að styðja Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem forseta landsins, þar til boðað hefur verið til nýrra kosninga.

Þessari skoðun sinni deilir ráðherrann fyrrverandi á vefsíðu sinni í kvöld, en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra greindi frá afstöðu ríkisstjórnar Íslands í samtali við mbl.is í kvöld.

„Sannast sagna hélt ég að afhjúpun ósanninda um valdaskipti og tilraunir til valdaskipta í Írak, Líbíu, Sýrlandi og nú Venesúela, svo nýjustu dæmin séu nefnd, væri nóg til að íslensk stjórnvöld sæju sóma sinn í því að halda sér alla vega til hlés,“ skrifar Ögmundur á vef sinn og bætir við að í öllum tilfellum hafi gerandinn verið hinn sami, „bandalagsríki Íslands í NATÓ með Bandaríkin í broddi fylkingar“.

„Réttast væri að mótmæla ofbeldinu og ósannindunum en lágmarkskrafa er að gerast ekki svo svívirðilega undirgefinn heimsauðvaldinu sem þess afstaða ríkisstjórnar og Alþingis ber vott um,“ skrifar Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina