Runnu út af veginum í Vatnsskarðinu

Björgunarsveitir mönnuðu lokunarpósta og aðstoðuðu ökumenn á Krísuvíkurvegi. Mynd úr …
Björgunarsveitir mönnuðu lokunarpósta og aðstoðuðu ökumenn á Krísuvíkurvegi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Nokkrir bílar lentu í vandræðum í Vatnsskarðinu á Krísuvíkurvegi í gærkvöldi, vegna mikillar hálku og runnu út af veginum í sterkum vindhviðum. Nóttin var annars róleg hjá björgunarsveitum, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar upplýsingafulltrúa Landsbjargar, en engin atvik voru skráð eftir miðnætti.

Ökumennirnir höfðu ætlað að stytta sér leið um Krísuvíkurveg á ferð sinni til höfuðborgarsvæðisins. Mikil hálka reyndist hins vegar á veginum og sterkar vindhviður í Vatnsskarðinu ollu því að bílarnir runnu út af. „Þarna verða aðstæður sem fólk ræður ekki við,“ segir Davíð Már og kveður menn hafa átt erfitt með að fóta sig á veginum.

„Þetta er staða sem getur komið upp þegar margar leiðir eru lokaðar, en Suðurstrandavegurinn er opinn. Þá vill fólk stundum reyna að stytta sér leið í gegnum Krísuvíkina.“ Vatnsskarðið geti hins vegar orðið erfitt yfirferðar í sérstökum aðstæðum sem þessum. „Það var bara gott að allt fór vel.“

Hann segir þrjá bíla upphaflega hafa lent í vanda í skarðinu, en björgunarsveitarmenn hafi náð að snúa við þeim bílum sem á eftir komu og senda þá til baka út á Suðurstrandarveg og í gegnum Grindavík. Einhverjir fengu þá aðstoð björgunarsveitarmanna við að snúa við bílum sínum.

Í kjölfarið var svo tekin ákvörðun hjá Vegagerðinni um að loka veginum í gegnum Krísuvík.

Forvirkar lokanir virka

Björgunarsveitir mönnuðu lokunarpósta Vegagerðarinnar fram undir miðnætti, en önnur verkefni kvöldsins voru minni háttar að sögn Davíðs.

„Við lesum það út úr þessu að forvirkar lokanir Vegagerðarinnar séu að skila einhverju og að fólk sé líka að hlusta á tilkynningar og fara eftir þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert