Mönnunum tryggt fæði og skjól

Hall­dór Grön­vold, aðstoðarfram­kvæmda­stjóri ASÍ.
Hall­dór Grön­vold, aðstoðarfram­kvæmda­stjóri ASÍ. mbl.is/Styrmir Kári

Rúmensku verkamönnunum sem grun­ur leik­ur á að séu í nauðung­ar­vinnu hjá starfs­manna­leigu á höfuðborg­ar­svæðinu hefur verið tryggt fæði og húsnæði næstu daga.

Þetta staðfesti Hall­dór Grön­vold, aðstoðarfram­kvæmda­stjóri ASÍ, við mbl.is en hann hefur unnið í máli þeirra í dag. Mennirnir starfa eða störfuðu í bygg­ing­ariðnaði á veg­um starfs­manna­leig­unn­ar Menn í vinnu ehf. og stigu fram í gær vegna ógreiddra launa og óboðlegra aðstæðna í húsnæði við Hjallabrekku og Dalveg í Kópavogi.

„Við munum fjármagna fyrir þá neyslu á mat og drykk, og svo hef ég gert samkomulag við Menn í vinnu um að þeir fái að vera í þessu húsnæði, allavega fram yfir helgi. Þeir vilja gjarnan vera hér áfram og fá vinnu sem þeir fá borgað fyrir. Það verður verkefni okkar eftir helgi að finna með þeim meiri framtíðarlausnir,“ sagði Halldór við mbl.is.

Aðspurður hvort og þá hvernig lögregla kemur að málinu segir Halldór að eftir því hafi verið óskað að hún tryggi í það minnsta öryggi mannanna ef eitthvað kæmi upp á í húsnæði þeirra.

Auk ASÍ er málið einnig inni á borði hjá Eflingu, sem undirbýr launakröfur fyrir hönd mannanna. Eins og mbl.is greindi frá í dag gæti þetta mál verið það fyrsta þar sem reynir á keðjuábyrgð sem sett var inn í lög um starfs­manna­leig­ur á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert