78 sentimetra snjódýpt á Akureyri

Í morgun mældist snjódýpt á Akureyri 78 sentimetrar og er …
Í morgun mældist snjódýpt á Akureyri 78 sentimetrar og er talið að það haldi áfram að snjóa fram á nótt. mbl.is/Þorgeir

Snjódýptin mældist 78 sentimetrar á Akureyri klukkan níu í morgun og hefur snjóað nokkuð að undanförnu. Nokkrir minni háttar árekstrar hafa orðið og hafa einhverjir fest bíla sína vegna færðarinnar segir lögreglan á Akureyri í samtali við mbl.is.

Flestum sem fastir voru hefur tekist að losa bíla sína án aðstoðar, upplýsir lögreglan sem bendir á að ekki hafi verið fólksbílafært í morgun, en nú sé búið að moka flestar götur bæjarins.

Búast má við því að éljagangur haldi áfram á Norður- og Austurlandi fram á nótt, en síðan dragi ört úr vindi og ofankomu undir morgun. Á morgun verður hins vegar komið hið fínasta veður, segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Lögreglan á Akureyri hvetur ökumenn til þess að keyra varlega og að ganga úr skugga um að bílar þeirra séu rétt útbúnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert