Skipa sérstaka „konfettí-sveit“

Dansbyltingin Millarður rís verður fer fram hér á landi í …
Dansbyltingin Millarður rís verður fer fram hér á landi í sjöunda sinn á morgun þar sem fólk kemur saman og dansar fyrir heimi þar sem allir, óháð kyni og kynhneigð, fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi. Ljósmynd/Samsett/UN Women

Hin ár­lega dans­bylt­ing, Millj­arður rís, fer fram í Hörpu í hádeginu á morgun. Þetta er í sjöunda sinn sem fólk kemur saman og dansar fyrir heimi þar sem allir, óháð kyni og kynhneigð, fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi. Átakið er á vegum UN Women, sem fagnar 30 ára afmæli í ár, og því verður viðburðurinn sérstaklega veglegur og unninn í samstarfi við Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhús og DJ Margeir.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mun hleypa dansbyltingunni af stað með örfáum orðum. Líkt og fyrri ár er það plötusnúðurinn DJ Margeir sem stýrir tónlistinni og fær hann til liðs við sig glæsilegan hóp tónlistarfólks sem sér til þess að mannskapurinn hristi sig og skeki. Fram koma diskódúettinn Þú og ég, Amabadama, Auður, Svala Björgvins, GDRN, Högni, Daníel Ágúst og Cell7. „Við viljum hafa þetta sem fjölbreyttast svo að allir geti notið sín,“ segir Marta Goðadóttir, herferða- og kynningarstýra UN Women, í samtali við mbl.is.

Sú skemmtilega hefð hefur skapast síðustu ár að skipa sérstaka „konfettí-sveit“ sem sér um konfettísprengjur meðan á dansgleðinni stendur. „Í ár er vaktin skipuð mjög öflugum konum sem beita sínum konfettí-kröftum alla leið,“ segir Marta. Mikil stemning myndast innan hópsins árlega að sögn Mörtu og nefnir sem dæmi að eitt árið hafi allur hópurinn farið saman út að borða. Í ár er sveitin skipuð Diljá Ámundadóttur, Hrefnu Rósu Sætran, Björg Þórsdóttur, Stellu Ólafsdóttir, Söru Pétursdóttur og Margréti Erlu Maack, svo ljóst er að von er á mikilli gleðisprengju.

Þá verður nýja FO-húfan til sölu á staðnum auk nýs FO-söluvarnings og rennur ágóðinn til verkefna UN Women sem vinna að því að uppræta kynbundið ofbeldi um allan heim. UN Women hvetur fólk til að mæta með FO-húfurnar sínar á svæðið og taka sínar eigin FO-myndir.

Frá dansbyltingunni Milljarður rís fyrir tveimur árum.
Frá dansbyltingunni Milljarður rís fyrir tveimur árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dansað gegn ofbeldi um allt land

Í fyrra var viðburðurinn haldinn í yfir 200 löndum víðs vegar um heiminn. Á Íslandi kom fjöldi fólks saman á öllum aldri um allt land. Í ár verður aftur dansað um allan heim sem og víða um landið.

Milljarður rís verður haldinn í Hörpu í Reykjavík og hefst dansbyltingin klukkan 12:15. Frí bílastæði verða við Hörpu meðan á viðburði stendur.

Þá verður einnig dansað í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, Fosshótel á Húsavík, íþróttahúsinu á Sauðárkróki, íþróttahúsinu Neskaupstað, íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum, í Hnyðju í Hólmavík, Nýheimum á Höfn í Hornafirði, íþróttahúsinu Iðu á Selfossi og Hofi á Akureyri. Aldrei hefur verið dansað á fleiri stöðum á landinu í tilefni af Milljarður rís.

UN Women á Íslandi hvetur alla til að mæta og dansa gegn kynbundnu ofbeldi.

Búast má við að fólk fjölmenni í Hörpu á morgun …
Búast má við að fólk fjölmenni í Hörpu á morgun til að dansa gegn ofbeldi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert