Sakfelld fyrir að beita stjúpson ofbeldi

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.
Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Landsréttur staðfesti í dag sex mánaða skilorðsbundið fangelsi yfir konu fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum. Konan var ákærð fyrir að hafa beitt stjúpson sinn ofbeldi, líkamlegum refsingum, ógnunum og sýnt yfirgang og ruddalegt athæfi.

Í ákærunni kemur fram að konan hafi slegið stjúpsoninn ítrekað með flötum lófa í andlitið og höfuð, með þeim afleiðingum að hann hlaut roða á báðum kinnum og öðru eyra.

Fram kemur í dómi Landsréttar að síðari ákærulið hafi verið breytt undir rekstri málsins. Konunni sé nú gefið að sök að hafa í eitt skiptið slegið drenginn í tvö til þrjú skipti með flötum lófa í andlit og höfuð.

Stjúpsonurinn hlaut sár og bólgu á neðri vör, eymsli innan á neðri vör og vinstri kinn, mar á vinstri kinn, bólgu á nefi og mar aftan við hægra eyra.

Í dómi Landsréttar kom fram að strákurinn hafi verið trúverðugur í frásögn sinni um fyrri ákæruliðinn og að framburður hans ætti sér skýra stoð í framburði móður hans. Konan neitaði því hins vegar að hafa slegið hann.

Konan viðurkennir að hafa slegið til stráksins tvisvar til þrisvar sinnum í öðrum lið ákærunnar en lýsti því að það hefði gerst eftir að hann hefði slegið hana. Héraðsdómur Reykjavíkur tók ekki undir framburð hennar að um neyðarvörn hafi verið að ræða og var hún sakfelld fyrir þann hluta ákærunnar líka. 

Landsréttur staðfesti það. Eins og áður sagði er konan dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Einnig skal hún greiða áfrýjunarkostnað, samtals 661.409 krónur, og þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.

Dómur Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert