Sigldi líklega á staur og féll útbyrðis

Maðurinn hafði verið að yfirfara vélbúnað bátsins, sem er opinn …
Maðurinn hafði verið að yfirfara vélbúnað bátsins, sem er opinn skemmtibátur eða harðbotna slöngubátur, að kvöldi 19. apríl og sjósetja eftir vetrargeymslu. mbl.is/Styrmir Kári

Maður sem fannst látinn í sjónum norðan við Vatnag­arða í Reykja­vík í apríl í fyrra sigldi líklega á staur og féll útbyrðis og drukknaði. Maðurinn var ölvaður þegar atvikið átti sér stað. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Maðurinn hafði verið að yfirfara vélbúnað bátsins, sem er opinn skemmtibátur eða harðbotna slöngubátur, að kvöldi 19. apríl og sjósetja eftir vetrargeymslu. Að því loknu hélt hann í prufusiglingu rétt fyrir miðnætti frá Snarfarahöfn og um Kleppsvík.

Þegar félaga mannsins fór að lengja eftir honum fóru þeir að líta eftir honum og fannst bátur hans mannlaus í gangi við bryggju Samskipa við Vogabakka. Höfðu þeir samband við lögreglu um klukkan eitt eftir miðnætti og hófst þá víðtæk leit að manninum.

Maðurinn fannst látinn í sjónum undir morgun um það bil 200 metra frá landi og talsvert frá siglingasvæðinu. Í frétt mbl.is var haft eftir lögreglu að enginn grunur væri um saknæmt athæfi.

Í skýrslu nefndarinnar segir að líklegt sé talið að báturinn hafi lent utan í staur, eða ljósmerki, og við það hafi maðurinn fallið útbyrðis, en það sé þó ekki fullvíst. Eftir áreksturinn breytti báturinn um stefnu og stöðvaðist við bryggjuna á Vogabakka. Við skoðun á staurnum mátti greina merki sem pössuðu við skemmdir á bátnum, en ljós og merkingar á staurnum voru í lagi.

Maðurinn var ekki í björgunarvesti og aðstæður um borð hentuðu illa til siglinga, auk þess sem maðurinn var ölvaður,  að því er segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert