Lifði af sex sólarhringa í snjóflóði

Tíkin Þota verður eins árs í apríl. Hún lifði af …
Tíkin Þota verður eins árs í apríl. Hún lifði af sex sólarhringa undir snjóflóði. Ljósmynd/Aðsend

Hvort það hafi verið hundalán eða kraftaverk að hundurinn Þota hafi skilað sér aftur heim á bæ í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal sex dögum eftir að hafa horfið sporlaust af bænum skal látið ósagt, en annað hvort var það. Í marga daga leituðu ábúendur á bænum, sveitungar þeirra og vinir að Þotu án árangurs, en hún var þá grafin undir snjóflóð sem fallið hafði í nágrenni bæjarins.

Sigrún Ólafsdóttir, sauðfjár- og hrossabóndi, segist vart hafa trúað sínum …
Sigrún Ólafsdóttir, sauðfjár- og hrossabóndi, segist vart hafa trúað sínum eigin eyrum þegar sonur hennar færði henni fregnir af því að Þota væri fundin heil á húfi. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum búin að gefa upp alla von,“ segir Sigrún Ólafsdóttir, sauðfjár- og hrossabóndi í Hallkelsstaðahlíð en þar búa þau hjónin, Skúli Skúlason og hún, sonur þeirra Guðmundur Margeir Skúlason og Brá Atladóttir tengdadóttir þeirra. Þau eiga fimm hunda, fjóra border collie-hunda, þar á meðal Þotu, og einn íslenskan fjárhund. Á bænum er rekin stór sauðfjárrækt, tamningabú og ferðaþjónusta.

Það var á laugardagsmorgun sem Þota hvarf. Þá hafði tíkin Þota sem er tæplega ársgömul eins og aðrir hundar á bænum farið út í klukkutíma fyrir morgunmat, eins og aðra morgna. Allir hundarnir skiluðu sér fljótlega heim á bæ, en ekki Þota og síðar sama dag var heimilisfólkinu ljóst að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera.

Vöknuðu um miðjar nætur og héldu að þau hefðu heyrt í henni

„Við héldum fyrst að hún hefði kannski farið eitthvað í kring, kíkt á hrossin, í fjárhúsið eða eitthvað,“ segir Sigrún. Hringt var á nágrannabæi og deilt á samfélagsmiðlum að tíkin væri týnd. „Við leituðum á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum,“ segir Sigrún, leitað var í hverjum krók og kima daginn sem hún hvarf og dagana á eftir.

„Við spurðumst fyrir á næstu bæjum, könnuðum hvort hún hefði lokast einhvers staðar inni, orðið undir snjó í skurði eða jafnvel komist í stóðið, orðið þar fyrir sparki, og hlaupið undan því. Síðustu dagana keyrðum við langar leiðir ef ske kynni að hún hefði farið fleiri kílómetra og villst,“ segir Sigrún.

Þá var leitað með dróna í sveitinni þegar veður leyfði, brunað á fjórhjólinu til fjalla og farið í göngutúra með hina hundana og þess freistað að þeir hefðu uppi á tíkinni. En allt kom fyrir ekki, engin ummerki voru um tíkina og leitin skilaði engu. Sigrún segir fjölskylduna hafa rokið upp oft um miðjar nætur dagana á eftir þegar þau þóttust hafa heyrt í hundi fyrir utan bæinn, en aldrei var þar Þotu að sjá og vonin dofnaði.

Guðmundur Margeir Skúlason, sonurinn á bænum, kom að tíkinni á …
Guðmundur Margeir Skúlason, sonurinn á bænum, kom að tíkinni á föstudagsmorgun. Hún var glöð að sjá lífsmark á bænum en bærinn var mannlaus þegar hún kom að honum þar sem allir voru við morgunverkin. Á myndinni með honum er Brá Atladóttir kærasta hans. Ljósmynd/Aðsend

Þota kom skríðandi á móti syninum

Á föstudagsmorgun, sex sólarhringum eftir að Þota hvarf, þegar fjölskyldan var að sinna hefðbundnum morgunverkum fór sonurinn, Guðmundur Margeir Skúlason, heim að bænum til að taka á móti ferðamönnum sem þau áttu von á. Þegar hann kom að bænum rak hann upp stór augu; fyrir utan bæinn var Þota sem tekur á móti honum skríðandi, fegin því að sjá lífsmark á bænum. Heil á húfi en mögur, svöng og þreytt.

Svæðið þar sem Þota fannst. Eins og má sjá á …
Svæðið þar sem Þota fannst. Eins og má sjá á myndinni hefur snjóhengja fallið niður hjá kartöflugarðinum sem er í 15-20 metra hæð ofan við ísilagt Hlíðavatn. Staurarnir í kartöflugarðinum eru u.þ.b. 150 cm háir. Ljósmynd/Aðsend

„Hann hringdi um leið og sagði að hún væri fundin. Við trúðum því varla,“ segir Sigrún. „Þetta voru þvílíkir fagnaðarfundir,“ segir Sigrún og bætir við að tíðindin hafi glatt marga sem höfðu komið að leitinni með einum eða öðrum hætti.

Skriðið inn í holuna sem Þota gróf til að komast …
Skriðið inn í holuna sem Þota gróf til að komast úr snjóflóðinu. Ljósmynd/Aðsend

Morguninn sem Þota skilaði sér heim hafði snjór nýfallið og var því auðvelt að rekja spor hennar og komast til botns í því hvar hún hefði haldið til þá sex sólarhringa sem liðnir voru frá því að hún hvarf. Sporin leiddu að lítilli holu fyrir neðan kartöflugarð við Hlíðarvatn. Þar hafði safnast mikill snjór í hengju sem fallið hafði á Þotu.

„Hún hafði grafið sig upp heljarlangan veg. Í raun og veru var hún heppin að hafa ekki grafið sig út til hliðar þar sem flóðið var stærra. Og ef hún hefði farið í hina áttina hefði hún farið í jarðveg eða möl,“ segir Sigrún.

Við leitina að Þotu hafði hin fallna hengja verið skoðuð vandlega en erfitt var að meta hvort hún væri nýfallin eða hvort eitthvað væri liðið frá því hún féll. Allir voru þó sammála um að lítill hundur gæti ekki verið á lífi undir þessu fargi. „Þetta er merki um lífsvilja og kraft að hún hefði haft sig þarna upp,“ segir Sigrún en Þota gengur nú undir nafninu Snjóþota í sveitinni.

„Hún er býsna góð, kát og hress. Öll að koma til,“ segir Sigrún spurð um líðan Þotu. „Við þorum ekki annað en að fara varlega í sambandi við fóður, og tökum enga sénsa. Hún þarf á næstu vikum að byggja sig upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert