„4 milljón króna laun eru ekki hófleg“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að starfskjarastefnu stjórnvalda fyrir fyrirtæki í …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að starfskjarastefnu stjórnvalda fyrir fyrirtæki í ríkiseigu hafi ekki verið fylgt. Eggert Jóhannesson

„Fjögurra milljóna króna laun eru ekki hófleg í neinum þeim veruleika sem við þekkjum til,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag. Voru orð hennar svar við fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, um hvort nýlegar breytingar á launakjörum forstjóra fyrirtækja í ríkiseigu hafi ekki áhrif á yfirstandandi kjaraviðræður.

Forsætisráherra sagði starfskjarastefnu ríkisins gagnavart bönkum í ríkiseigu kveða skýrt á um að laun skuli vera hófleg og samkeppnishæf. Vísaði Katrín til tilmæla sem fyrrverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, sendi til Bankasýslu ríkisins 2017 þar sem ítrekuð var starfskjarastefna ríkisins.

„Þessi tilmæli eru enn í gildi,“ sagði Katrín. „Kannski þarf að skrifa þessa starfskjarastefnu út þannig að hverjum manni sem er sé fullkomlega ljóst að við ætlumst til þess að þessum tilmælum sé fylgt eftir í raun.“

Afleiðingar?

Þórhildur Sunna spurði þá hvort þeir sem hafa sinnt stjórnarsetu í ríkisfyrirtækjum muni sæta einhverjum afleiðingum þar sem að hennar mati sé augljóst að stjórnirnar hafi hunsað tilmæli fyrrverandi fjármálaráðherra.

„Það liggur fyrir að núverandi fjármála- og efnahagsráðherra hefur sent Bankasýslu ríkisins og stjórnum þessara fyrirtækja þar sem hann ítrekar að tilmælin frá 2017 séu enn í fullu gildi, enda eru þau í fullu gildi, og óskað eftir rökstuðningi þessara stjórna fyrir sínum ákvörðunum,“ svaraði Katrín.

Þá sagði hún að Bankasýslunni og stjórnum fyrirtækjanna hefði verið gert að svara erindinu í þessari viku. Einnig benti hún á að kjararáð hafi verið lagt niður þar sem það hafi verið eilíf uppspretta deilna.

Bætti Katrín síðan við að það hljóti að vera gerð sú krafa að launastefna sé í takt við stefnu stjórnvalda á hverjum tíma.

mbl.is